Kína senn með helming málmneyslunnar

Hið ört vaxandi hagkerfi Kína mun þurfa meira en helming heimseftirspurnarinnar eftir auðlindum innan áratugar, svo hraður er vöxturinn, og kann þessi þróun að leiða til árekstra við önnur ríki um aðgang að mikilvægum hráefnum til framleiðslu.

Þetta er mat stjórnenda Rio Tinto, annars stærsta námafyrirtækis heims, sem benda á að neysla Kínverja á járngrýti fyrir járn- og stálvinnslu sé þegar 47% af heimsneyslunni, álnotkunin 32% og neyslan á kopar fjórðungur af heildinni.

Þróunin mun halda áfram og spáir Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, því að innan næstu tveggja ára muni þessi hlutföll hækka í 58% í járninu, 45% í álinu og í um 33% í koparnum.

Gífurleg umskipti hafa orðið í eftirspurninni frá Kína frá því að verslunarfrelsi var aukið fyrir um þremur áratugum: Árið 1990 nam eftirspurn Kínverja eftir kopar um 5% heimseftirspurnarinnar. Hluturinn í járninu og álinu var enn lægri, eða aðeins 3%, að því er fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu breska dagblaðsins The Times um neysluaukninguna eystra.

Ástralar munu halda áfram að njóta góðs af þessum umskiptum og er fyrirhugað að stórauka vinnslu á járngrýti í Vestur-Ástralíu fyrir Kínamarkað, en áætlað er að eftirspurnin í Kína verði komin í milljarð tonna árið 2015.

Ráðgerir Vivek Tulpule, yfirhagfræðingur Rio Tinto, að hlutdeild Kínverja af heimsneyslunni muni halda áfram að aukast þangað til 2020, þegar hlutur Indverja og annarra ört vaxandi hagkerfa mun byrja að vega þyngra.

Þörfin fyrir samgöngutæki fer stigvaxandi í Kína og berast nú fregnir af því að stærsti stálframleiðandinn annars vegar (Baosteel Group) og álframleiðandinn í landinu hins vegar (Chinalco) hafi í hyggju að leggja til hluta stofnfjár í fyrirtæki um smíði flugvéla.

Keppa við Boeing og Airbus

Fjárfesting kínverskra aðila í bandarísku fjármálalífi eykst stöðugt og þykja kaup þeirra á fyrirtækjum vestanhafs minna á fjárfestingu japanskra og þýskra aðila á áttunda og níunda áratugnum, að því er kemur fram í fréttaskýringu dagblaðsins Washington Post.

Alls nam fjárfestingin 625 milljörðum ísl. króna árið 2007 og bendir flest til að hún muni aukast á næstu árum og eru kínverskir aðilar nú að ganga frá samningum um kaup á fyrirtækjum í matvæla- og timburiðnaðinum í Pennsylvaníu, svo dæmi sé tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert