Ekkert lát er á ofbeldisöldunni í Kenýa en í morgun skaut lögregla fjóra til bana í vesturhluta landsins. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum voru mennirnir fjórir hluti af hóp sem gekk um ruplandi og rænandi. Talið er að yfir 800 manns hafi látist átökum í landinu frá því að forsetakosningar fóru fram í lok síðasta árs. Um 300 þúsund manns hafa flúið heimili sín.
Ki-Moon ræðir við Odinga
Morðið á þingmanni stjórnarandstöðunnar í gær hefur sett bakslag í friðarviðræður í landinu en reyna á að halda viðræðum áfram í dag. Er það fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, sem leiðir viðræðurnar. Núverandi framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-Moon, er kominn til höfuðborgar Kenýa, Naírobi, þar sem hann ætlar að eiga fund með leiðtoga stjórnarandstöðunnar Raila Odinga, sem tapaði naumlega fyrir Mwai Kibaki í forsetakosningunum í lok desember. Odinga ásakar Kibaki um að hafa látið falsa úrslit kosninganna.
Óttaðist um öryggi fjölskyldunnar
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var morðið á þingmanninum, David Kimutai Too, ástríðumorð. Hann var skotinn af umferðarlögreglu sem komst að því að Too átti í ástarsambandi við unnustu lögregluþjónsins.
Too var annar þingmaður stjórnarandstöðunnar sem var myrtur í vikunni og telja liðsmenn stjórnarandstöðunnar að þeir hafi verið vegnir vegna stjórnmálaskoðana sinna. Fjölskylda Too ásakar lögreglu um að hylma yfir glæpinn með afsökunum um að morðið hafi verið ástríðuglæpur. Segir talsmaður fjölskyldunnar að ekkert sé hæft í ásökunum um að Too hafi átt í ástarsambandi við konuna sem einnig lést í árásinni, heldur hafi hann leitað til hennar, en hún var í lögreglunni, til þess að óska eftir vernd fyrir fjölskyldu sína þar sem hann óttaðist um öryggi hennar. Too er fyrrverandi kennari og tveggja barna faðir.