Sorgartímabili lýkur í Pakistan

Frá grafreit Bhutto í morgun
Frá grafreit Bhutto í morgun Reuters

Um tíu þúsund syrgjendur komu saman við gröf Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, í dag en í dag lýkur 40 daga sorgartímabili í landinu. Bhutto var myrt þann 27. desember sl. Þingkosningar verða haldnar í Pakistan þann 18. febrúar næstkomandi.

Stuðningsmenn Bhutto alls staðar frá Sindh-héraði, heimahéraði Bhutto, sem og stuðningsmenn alls staðar að komu saman við grafreit fjölskyldu Bhutto í morgun og minntust látins leiðtoga.

Á laugardag mun flokkur Bhutto hefja kosningabaráttuna en eiginmaður Bhutto, Asif Ali Zardari, mun leiða baráttu flokksins.

Þrír fulltrúar Scotland Yard komu til Islamabad í morgun til þess að vinna rannsókn á morðinu á Bhutto. Er von á skýrslu frá rannsóknarhópnum á morgun. Forseti Pakistans, Pervez Musharraf, leitaði til breskra stjórnvalda um aðstoð við að rannsaka hvernig dauða Bhutto bar að en hún var skotin til bana á fundi með stuðningsmönnum. Musharraf hefur hins vegar hafnað ósk flokksfélaga Bhutto um að Sameinuðu þjóðirnar komi að sjálfstæðri rannsókn á morðinu. Fyrir dauða sinn hafði Bhutto ásakað stuðningsmenn forsetans um að ætla að myrða hana. Því hafa stjórnvöld neitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert