Flugmaðurinn 66 ára

Piper Cherokee flugvélin, sem Greg Frey flaug, er fyrir miðri …
Piper Cherokee flugvélin, sem Greg Frey flaug, er fyrir miðri mynd. mynd/Eggert Norðdahl

Flugmaðurinn, sem leitað hefur verið að í sjónum suðaustur af landinu undanfarna daga, heitir Greg Frey, 66 ára að aldri. Fram kemur á fréttavefnum hernandotoday.com, að Frey búi í Spring Hill á Flórída. Hann ætlaði að fljúga Piper Cherokee flugvél til nýrra eigenda í Þýskalandi.

Fréttavefurinn segir, að fjölskylda Freys hafi verið á heimili hans í Spring Hill í gærkvöldi í þeirri von að fá fréttir af leitinni, sem engan árangur hefur borið. Flugvélin fór í sjóinn laust fyrir hádegi á fimmtudag. Fram hefur komið að ísing olli því að vélin fór í sjóinn.

Frey starfar hjá fyrirtækinu Globe Aero í Lakeland  sem sér um að ferja flugvélar. Frey, sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í ár, fór frá Lakeland á mánudag áleiðis til Bangor í Maine. Þaðan flaug hann til Kanada, yfir Grænland og til Íslands þar sem hann varð fyrir töfum vegna óveðurs og beið af sér veðrið í þrjá daga áður en hann hélt af stað á ný áleiðis til Skotlands. 

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að Frey hætti við að fara héðan á miðvikudag vegna ísingarhættu en ákvað að fara á fimmtudag  þegar veðurspár gerðu ráð fyrir hóflegri hættu á ísingu.

Hernandotoday.com hefur eftir Greg Frey Jr., syni Freys, að faðir hans hafi byrjað að fljúga 16 ára gamall. Hann hætti störfum sextugur eftir að hafa flogið sem atvinnuflugmaður í 34 ár. Hann vann hins vega áfram ýmis verk í tengslum við flug þar til hann hóf að vinna á síðasta ári sem ferjuflugmaður.

Frey og eiginkona hans, Maureen, eiga fjögur uppkomin börn. Þau ætluðu að halda upp á 33 ára brúðkaupsafmælið 2. mars á 67 ára afmælisdegi Freys. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert