Eliot Spitzer sagði af sér

Eliot Spitzer, ríkisstjóri í New York, sagði af sér embætti í dag og mun hann hætta störfum sem ríkisstjóri á mánudaginn.  Vararíkisstjóri, David Paterson, tekur við af Spitzer. 

„Í mínu opinbera starfi hef ég lagt áherslu á að fólk, sama í hvaða stöðu það er, taki ábyrgð á gjörðum sínum, sama gildir um sjálfan mig og því segi ég af mér embætti ríkisstjóra," sagði Spitzer á blaðamannafundi í New York.
 

Mjög hafði verið þrýst á Spitzer að segja af sér  eftir að tengsl hans við vændishring komust upp.  Spitzer er sagður hafa átt fund með vændiskonu á hóteli í Washington en alríkislögreglan hleraði samtöl hans og vændiskonunnar á fundi þeirra. 

New York Times greindi frá tengslum Spitzer við vændi á mánudaginn og eftir það kom hann fram opinberlega og baðst afsökunar á framferði sínu.  Í gær gáfu repúblikanar á ríkisþinginu Spitzer 48 klukkustunda frest til þess að segja af sér, annars yrði lögð fram ákæra á þinginu gegn honum til embættismissis.

Spitzer var kjörinn ríkisstjóri í New York í janúar í fyrra, en í framboði sínu til ríkisstjóra lagði hann mikla áherslu á siðferðisumbætur í stjórnkerfinu.  Um tíma gekk Spitzer undir nafninu „Wall Street löggan" en hann lagði  mikið uppúr að rannsaka og uppræta fjármálamisferli, skipulagða glæpi og vændi. 

Eliot Spitzer og kona hans.
Eliot Spitzer og kona hans. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka