Drekahagkerfið vígvæðist

Kínverskir ráðamenn reyna að gera sem minnst úr því en það dylst engum sem fylgist með hernaðaruppbyggingunni í Kína að áherslan er á að efla varnir landsins hratt og örugglega og gera herinn í stakk búinn til að heyja hátæknistríð.

Drekahagkerfið hefur þanist út undanfarin ár og hagvöxtur verið um og yfir tíu prósentin, þróun sem veitt hefur verið mun meiri athygli en það svigrúm sem slíkur auður skapar til hernaðaruppbyggingar: Árið í ár er það tuttugasta í röðinni sem útgjöld Kínverja til hermála aukast um að minnsta kosti tíu prósent.

Tölurnar tala sínu máli (sjá súlurnar til hliðar). Árið 1998 námu uppgefin útgjöld til hermála 11,3 milljörðum dala, nú tíu árum síðar er ráðgert að 58,75 milljörðum dala verði varið í hermál, eða sem svarar 3.887 milljörðum króna á núvirði. Og ekki nóg með það, bandarísk hermálayfirvöld áætla að hin raunverulegu útgjöld Kínverja til hersins séu tvöfalt hærri (sumir segja þrefalt), sem þýðir að þau munu í ár nema að minnsta kosti yfir 7.000 milljörðum króna.

Fyrir slíkar upphæðir má kaupa mikið af hergögnum og greiða gríðarlegum fjölda hermanna laun, enda launakostnaður miklum mun lægri en t.a.m. í Bandaríkjunum.

Gera lítið úr umsvifum sínum

Þá má ekki gleyma því að Bandaríkjastjórn ver enn sem komið er miklu hærri fjárhæðum til hermála og er skammt síðan stjórn Bush forseta fór fram á 515 milljarða dala fjárveitingu til hersins, að frátöldum aukafjárveitingum til stríðsrekstursins í Írak og Afganistan.

Og þrátt fyrir að kínverska hagkerfið fari líklega senn fram úr því bandaríska að stærð og umfangi er áætlað að samanlögð stærð hagkerfa aðildarríkja Efnahags- og þróunarstofnunarinnar, OECD, verði um 105 billjarðar Bandaríkjadala (milljón milljónir dala) árið 2030, það kínverska 63 billjarðar dala miðað við kaupmáttarjöfnuð, PPP, í bandarískum dölum, í spá OECD og Economist Intelligence Unit fyrir 2005-30. Samkvæmt sömu spá muni útgjöld til varnarmála í Kína nema 238 billjörðum dala árið 2030 en 1,398 billjörðum dala í OECD-ríkjunum.

Því telur G. John Ikenberry, prófessor við Princeton-háskóla, í nýlegri grein í Foreign Affairs að það sé einföldun að stilla dæminu upp á þann veg að vöxtur kínverska hagkerfisins þurfi að vera ógn við valdajafnvægið í heiminum.

Og þá má ekki gleyma því að miklu varðar hvernig hinn Asíurisinn, Indland, þróast með tilliti til varnarmála á næstu áratugum.

Endurnýja kjarnavopnin

Til að leita svara við þessari spurningu leitast bandarísk hermálayfirvöld við að greina áherslurnar í þróun heraflans og meta hver markmiðin eru út frá þeim hergögnum sem keypt eru hverju sinni.

Þessi nálgun er uppistaðan í árlegri skýrslu bandaríska varnarmálaráðuneytisins til Bandaríkjaþings (sjá heimildaskrá).

Þar segir að hraði og umfang nútímavæðingar kínverska hersins hafi aukist á síðustu árum. Keypt hafi verið þróuð vopn frá öðrum ríkjum og haldið áfram á braut mikillar fjárfestingar í vopnaframleiðslu- og hertækniðnaði landsins. Þróunin breyti hernaðarjafnvæginu í Austur-Asíu og hafi áhrif utan álfunnar.

Margt skýrir hin auknu áhrif. Kjarnorkuvopnabúrið hefur verið nútímavætt og net gagnflauga, bæði langdrægra og skammdrægra verður sífellt þéttriðnara, og má þar nefna flaugar sem hafa 1.500 km drægni og beina má gegn herskipum, að viðbættum flaugum til að granda gervihnöttum í geimnum.

Um þúsund flaugum er nú beint að Taívan, tala sem hækkar um hundrað flaugar á ári, og telja bandarísk hermálayfirvöld skotflaugakerfi Kína nú það „virkasta“ í heiminum.

Skýrsluhöfundar varnarmálaráðuneytisins draga hernaðaruppbygginguna saman í þeim orðum að herinn sé að breytast úr fjölmennum landher sem varist geti árásum á kínversku landsvæði í her sem geti haft betur í bardögum við hátækniheri við jaðar yfirráðasvæðis síns. En það er aðeins upphafið. Þrátt fyrir takmarkaða þekkingu alþjóðasamfélagsins bendi greining á hernaðaruppbyggingunni til að verið sé að búa herinn undir stríð á öðrum svæðum, sem sagt í öðrum ríkjum, „svo sem undir átök vegna auðlinda eða vegna deilna um landsvæði“.

Byggja upp olíubirgðirnar

Hin hraða uppbygging neytendamarkaðarins mun stórauka tekjur ríkisins og það kemur því ekki á óvart að Bandaríkjaher skuli fylgjast grannt með þróuninni, sem Kínverjar reyna að gera sem minnst úr.

Fyrir því eru sögulegar ástæður.

Deng Xiaoping, fyrrverandi leiðtogi kommúnistaflokksins og faðir umbreytingarinnar yfir í kínverskt markaðshagkerfi fyrir um þrjátíu árum, boðaði utanríkisstefnu ríkis sem gerði sem minnst úr áhrifum sínum og gerði ekki tilkall til leiðtogasætis í heimspólitíkinni.

Þörfin fyrir hráefnisvörur hefur hins vegar leitt til þess að Kínastjórn hefur markvisst aukið áhrif sín og styrkt viðskiptanet sitt, svo sem með fjárfestingum í olíuiðnaði Súdans, eins og fræðimennirnir Stephanie Kleine-Ahlbrandt og Andrew Small benda á í grein í áðurnefndu tölublaði Foreign Affairs. Og eins og rakið var í Morgunblaðinu fyrir skömmu hafa Kínverjar fjárfest fyrir þúsundir milljarða króna í Afríku.

Þrátt fyrir þessi umskipti halda Kínverjar fast í þá hefð að gera lítið úr áhrifum sínum og eins og við var að búast afgreiddu kínversk stjórnvöld hina árlegu skýrslu varnarmálaráðuneytisins sem „afbökun á staðreyndum“. „Bandaríkin ættu að falla frá kaldastríðshugarfari sínu,“ sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Bandarískir ráðamenn taka yfirlýsingum Kínahers með fyrirvara og benda á að talið sé að kínverskir aðilar hafi margsinnis brotist inn í tölvukerfi víðs vegar um heim, þ.m.t. í kerfi í notkun Bandaríkjastjórnar.

Uppbygging markaðhagkerfisins mikilvægasta viðfangsefnið

Það vegur einnig þungt að þetta fjölmennasta ríki heims er í miðju umbreytingarferli frá vanþróuðu ríki fámennrar yfirstéttar og geysifjölmennrar bændastéttar, yfir í markaðsdrifið risahagkerfi sem mun ekki eiga sér nokkur fordæmi í mannkynssögunni.

Það er því algert lykilatriði í stjórnmálum landsins að tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða, ásamt því sem kröfur um lýðræðislega stjórnarhætti fara vaxandi. Slík uppbygging krefst hins vegar óheyrilegs magns hráefnisvara, málma og byggingarefna þar á meðal, og því ekki að ástæðulausu sem bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast auðlindastríð.

Önnur áskorun er fólgin í þeirri félagslegu ólgu sem birtist í tíðum uppreisnum almennings gegn ofríki og misrétti. Kínafræðingurinn Göran Malmqvist taldi í samtali við Morgunblaðið fyrir áramót fjölda slíkra tilvika hafa verið skráðan í tugum þúsunda árið 2007. Malmqvist sagði: „Á árinu 2006 var efnt til 97.000 mótmælaaðgerða í landinu. Í þessum hópi eru bændur sem grípa það sem er hendi næst og ráðast á lögreglustöðvar, kveikja í þeim, og velta lögreglubifreiðum. Allt tal stjórnarelítunnar um áherslu á félagslega einingu er því út í loftið.“

Í ljósi þessa fjölda vaknar spurning hvort og þá hvenær sú ólga kunni að þróast yfir í fjöldahreyfingar fyrir lýðræði. Ekki verður gerð tilraun til að svara þeirri flóknu spurningu hér en látið nægja að nefna að í áðurnefndu tölublaði Foreign Affairs var haft eftir kínverskum embættismanni að enginn vænti þess að lýðræði skjóti rótum innan fimm ára. Sumir nefni tíu til fimmtán ár í þessu samhengi, aðrir þrjátíu til þrjátíu og fimm ár, enginn sex áratugi.

Í hnotskurn






Heimildir

John L. Thornton, „Long Time Coming“, Foreign Affairs, janúar/febrúar, 2008.

G. John Ikenberry, „The Rise of China and the Future of the West“, sama tbl. FA.

Stephanie Kleine-Ahlbrandt og Andrew Small, „China's New Dictatorship Diplomacy“, sama blað.

„Military Power of the People's Republic of China 2008“, Office of the Secretary of Defense. Aðgengileg á netinu.

„Risaríki á brauðfótum.“ Viðtal við Göran Malmqvist í Morgunblaðinu 13. nóv. 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert