Launin duga ekki fyrir nauðsynjum

eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

FIMMTÍU særðust, flestir lögreglumenn, þegar tuttugu þúsund verkamenn efndu til mótmæla vegna hás matarverðs og lágra launa á götum Dhaka, höfuðborgar Bangladesh, um helgina, en eins og svo víða í Asíu hefur hrísgrjónaverð hækkað mikið í þessu fjölmenna ríki. Mótmælendur gengu berserksgang, kveiktu í fólksbílum og rútum, ollu skemmdum í verksmiðjum og grýttu múrsteinum í átt að lögreglu.

Stöðugar hækkanir í matvælaverðinu þykja ógn við stöðugleika í þróunarlöndunum og því hyggst Alþjóðabankinn á næstunni bregðast við stöðunni með auknum lánum til matvælaframleiðslu.

Þróunin kemur illa niður á hinum fátækustu í Bangladesh.

„Þeir segja að launin dugi ekki einu sinni fyrir nauðsynjum,“ sagði lögregluþjónninn Shafiqul Islam, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Verð á hrísgrjónum er uppistaðan í fæðu íbúa landsins og hefur tvöföldun á verðinu því komið illa niður á heimilum landsins, sem áætlað er að verji að meðaltali um 70% útgjalda sinna til kaupa á matvælum.

Hrísgrjónin hækkað um 70%

Ólgan í Bangladesh er ekkert einsdæmi. Þegar olíuverðið skaust upp á áttunda áratugnum var rætt um olíukreppu og í ljósi verðþróunarinnar á matvælum að undanförnu sýnist ekki ofmælt að skilgreina hana sem matarkreppu.

Egyptaland er ágætt dæmi. Þar hefur verðið á brauði og korni hækkað um 50% á ári og reiði almennings brotist út í blóðugum óeirðum. Á Indlandi hefur verð á basmatí-hrísgrjónum, helstu fæðu Indverja, hækkað um 70% síðustu sex mánuði.

Hrísgrjón eru meginuppistaðan í fæðu um þriggja milljarða manna og býr þar af um milljarður á Indlandi. Útlit er fyrir að verðið haldist hátt enn um sinn og má nefna að alþjóðleg stofnun á Filippseyjum sem fylgist með hrísgrjónamarkaðnum áætlar að verðið, sem er þegar farið yfir 1.000 Bandaríkjadali tonnið, muni hækka enn á næstunni, enda verði eftirspurnin meiri en framboðið.

Hundruð þúsunda munu svelta

Talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins óttast afleiðingarnar.

„Ef matvælaverðið heldur áfram að þróast eins og það gerir í dag [...] munu afleiðingarnar verða hræðilegar,“ sagði Dominique Strauss-Kahn, einn aðalstjórnenda sjóðsins, og bætti því við að „hundruð þúsunda manna myndu svelta“.

Stjórn Alþjóðabankans fundaði um þróunina í gær og lét Robert Zoellick, forseti bankans, við það tilefni þau orð falla að hækkanirnar gætu þýtt að sjö ára barátta gegn fátækt í heiminum gæti orðið að engu.

Boðar Zoellick ígildi þeirra aðgerða sem Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti greip til eftir kreppuna miklu 1929, í því skyni að bregðast við matarkreppunni nú.

Mat bankans væri að tvöföldun matarverðsins á síðustu þremur árum gæti aukið á örbirgð hundrað milljóna manna í fátækustu ríkjunum. Meðal aðgerða nú eru tvöföldun lána til landbúnaðar í Afríku, í alls um 800 milljónir Bandaríkjadala, í um 58,5 milljarða íslenskra króna.

Til marks um þróunina kemur fram í nýjum gögnum Alþjóðabankans að verð á hveiti á heimsmörkuðum hafi hækkað um 181% á síðustu 36 mánuðum (fram að febrúar sl.), á sama tíma og verð á matvælum í heiminum hafi hækkað um 83%.

Í hnotskurn
» Lágmarkslaun í fataiðnaðinum í Bangladesh eru um 25 Bandaríkjadalir á mánuði, eða um það 1.830 íslenskar krónur.
» Forsætisráðherra Haítí lét af embætti á laugardag eftir óeirðir vegna matarverðsins.
» Herinn í Pakistan og Taílandi vaktar nú vöruhýsi og svæði þar sem matvælaframleiðsla fer fram.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert