Réttarhöld hafin yfir meintum fjárkúgurum

Buckingham-höll í London.
Buckingham-höll í London. Reuters

Tveir menn, sem eru ákærðir fyrir að reyna kúga fé út úr manni í bresku konungsfjölskyldunni, komu fyrir dóm í Lundúnum í dag.  Mennirnir, sem um ræðir, eru annars vegar Sean McGuigan, fertugur Íri, og hins vegar Ian Strachan, öðru nafni Paul Adalsteinsson. Er faðir hans íslenskur, Charlie Adalsteinsson, en hefur búið lengi í Bretlandi. Er hann með fisksölu í Fraserburgh í Skotlandi.

Foreldrar Ians eða Pauls skildu er hann var níu ára og þá tók hann upp ættarnafn móður sinnar. Hefur hann fengist við ýmislegt um dagana að eigin sögn, meðal annars fasteignasölu, en fyrir nokkrum árum fluttist hann til Lundúna ásamt móður sinni. Fór hann þá að stunda félagsskap ríka fólksins og er sagður hafa þóst vel efnum búinn, að hann hafi erft mikið fé eftir íslenska ömmu sína.

Mennirnir, sem neita sök, eru ákærðir fyrir að hafa krafist þess að fá greidd 50 þúsund pund ella myndu þeir birta myndband, sem kæmi manni í bresku konungsfjölskyldunni illa. Myndbandið á að sýna meðlim í konungsfjölskyldunni neyta eiturlyfja og eiga kynmök við annan mann.

Ákveðið hefur verið að hluti réttarhaldanna fari fram fyrir luktum dyrum  en konungsfjölskyldan hefur neitað að tjá sig um málið við fjölmiðla. Tvímenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því þeir voru handteknir þann 11. september á hóteli í Lundúnum. Ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert