Raúl Castro, sem nýlega var kjörinn forseti Kúbu þegar Fidel bróðir hans hætti, fylgdist með hátíðarsamkomu í miðborg Havana í dag. Sumir Kúbverjar höfðu vonast til að forsetinn myndi tilkynna um frekari tilslakanir í landinu en af því varð ekki og hátíðarhöldin tóku óvenju stuttan tíma eða tvær stundir.
Talið er að hundruð þúsunda manna hafi sótt fundinn. Salvador Valdes Mesa, leiðtogi verkalýðssamtaka Kúbu, hvatti íbúa landsins til að leggja meira á sig til að mæta hækkandi verði á matvælum og eldsneyti. Yrðu verkamenn að fylgja fordæmi Fidels Castro og uppræta veikleika og vanhæfni á vinnustöðum.
Raúl, sem er 76 ára, hefur nýlega aflétt takmörkunum á notkun farsíma og annarra raftækja og boðað tilslakanir á ferðafrelsi. Laun og eftirlaun sumra ríkisstarfsmanna voru nýlega hækkuð en eru samt aðeins um 1300 krónur að jafnaði á mánuði. Heilbrigðisþjónusta og menntun eru ókeypis, matvæli eru niðurgreidd og fæstir þurfa að greiða fyrir húsnæði.