Hjálpargögn á leiðinni til Búrma

AP

Herforingjastjórnin á Búrma hefur ákveðið að heimila flutning á frekari hjálpargögnum frá Bandaríkjunum inn í landið. Er talið að með þessu aukist líkur á því að stjórnvöld á Búrma heimili víðtækt hjálparstarf í landinu, tíu dögum eftir að  fellibylurinn Nargis reið yfir landið.

Tvær flutningavélar á vegum Bandaríkjahers fóru frá Utapao flugvelli í Taílandi í dag hlaðnar hjálpargögnum. Um eru að ræða teppi, vatn og flugnanet. Í gær fékk vél Bandaríkjahers að lenda með hjálpargögn í stærstu borg Búrma, Yangon. Stjórnvöld á Búrma áætla að 32 þúsund hafi látist í fellibylnum.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti í gær yfir mikilli óánægju með framgang björgunaraðgerða í Búrma og að innan við þriðjungi fórnarlamba fellibyljarins Nargis hefði borist neyðaraðstoð. 

Í tilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, kemur fram að starfsmenn í birgðastöð UNICEF í Kaupmannahöfn hafi um helgina pakkað lífsnauðsynlegum neyðargögnum fyrir fórnarlömb fellibyljarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert