Þrjár manneskjur hafa fundist á lífi í húsarústum í Sichuan-héraði í dag, viku eftir að jarðskjálfti, sem mældist 7,9 stig á Richter, reið yfir. Ein þeirra lést fljótlega eftir björgunina. Þau sem björguðust var karlmaður á níræðisaldri sem fannst í húsarústum í Beishan-sýslu. Er hann fótbrotinn en ekki talinn í lífshættu.
Li Lingcui, 61 árs, var bjargað úr rústum húss í Beichuan-sýslu í morgun. Hún er margbrotin auk þess að þjást af sýkingum sem ekki hafa verið skilgreindar nánar í kínverskum fjölmiðlum. Þriðja manneskjan, fimmtug kona, fannst á lífi í rústum byggingar við kolanámu í bænum Hanwang í nágrenni Deyang borgar. Hún lést hins vegar fljótlega eftir björgunina.