Elsta Fritzl barnið á batavegi

Til stendur að vekja nítján ára dóttur Elisabetar og Joseps Fritzl en stúlkunni hefur verið haldið sofandi á sjúkrahúsi frá því hún var flutt úr jarðhýsi þar sem Josef hélt dóttur sinni fanginni í tuttugu og fjögur ár. Stúlkan er elst sex barna sem Elisabeth fæddi föður sínum og hafði hún aldrei komið út úr jarðhýsinu er hún var flutt þaðan fárveik. Þetta kemur fram á fréttavef Aftenposten.  

Albert Reiter, yfirlæknir á gjörgæsludeild sjúkrahússins í Amstetten, þar sem stúlkan dvelur, segir óljóst hversu langan tíma það muni taka að vekja stúlkuna. Ekki hefur verið greint frá því hvað amar að stúlkunni en hún var framan af talin í bráðri lífshættu.

Elisabet taldi föður sinn á að koma henni á sjúkrahús eftir að hún fékk krampa og missti meðvitund í jarðhýsinu. Í kjölfar þess vísaði Fritzl lögreglu á dóttur sína og tvö önnur börn hennar sem hann hélt föngnum í jarðhýsinu.

Elísabet, móðir hennar og börnin fimm, sem ólust annars vegar upp hjá móðir sinni og hins vegar hjá Fritzl og eiginkonu hans, dvelja enn á geðdeild sjúkrahúss í bænum Mauer. Þar njóta börnin nú sérkennslu en átján og fimm ára drengir, sem ólust upp í kjallaranum hafa aldrei gengið í skóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert