Stjórnvöld í Kína hafa látið flytja 197 þúsund manns brott af svæði, sem hætta er á að vatn flæði yfir í Sichuanhéraði. Gríðarlegt stöðuvatn hefur myndast eftir að skriður stífuðu ár á svæðinu og hækkar vatnsyfirborðið stöðugt.
Lögregla með hátalara hefur farið um Youxian í útjarði borgarinnar Mianyang og hrópað: rýmið, rýmið. Borgin er nánast mannlaus en hún lagðist að mestu í rúst í jarðskjálftanum, sem reið yfir héraðið 12. maí.
Íbúum er skipað að fara upp í hæðir við borgina en hundruð hermanna er að grafa skurði og byggja stíflur með það fyrir augum að létta vatnsþrýstingum af ánni Fu og koma í veg fyrir að hún flæði yfir bakka sína.
Þá er óttast að allt að 30 stíflur, sem myndast hafa vegna skriðufalla, kunni að besta og vatn flæði yfir byggðir.
Til þessa hafa 68.977 fundist látnir eftir skjálftann og 17.974 er saknað samkvæmt opinberum tölum.