Herþyrla, sem var að flytja slasaða frá jarðskjálftasvæðinu í Kína, brotlenti í gær í Wenchuansýslu. Björgunaraðgerðir standa yfir en ekki er talið að neinn hafi komist af.
Þoka og ókyrrð í lofti var á svæðinu þar sem þyrlan brotlenti, að sögn kínverskra ríkisfjölmiðla. Í þyrlunni voru auk áhafnar 10 óbreyttir borgarar sem slösuðust í jarðskjálftanum 12. maí.
Hermenn halda áfram að grafa skurði til að létta þrýstingi af gríðarstóru stöðuvatni, sem myndaðist þegar skriður, sem féllu í kjölfar jarðskjálftans, stífluðu ár. Óttast er að stíflurnar bresti og vatn flæði yfir stór svæði.
Verið er að rýma svæði fyrir neðan stífluna og er verið að flytja allt að 200 þúsund manns á brott í varúðarskyni.