Mat dreift með happdrætti

Reuter

Fólk sem flúið hefur hörmungasvæðin í Búrma skýrir frá því að herinn noti happdrætti til stýra því hver fái mat og hver ekki. Meira en helmingur þeirra sem lenti í hörmungunum hefur enn ekki fengið neina aðstoð, nú þegar mánuður er liðinn frá því að fellibylurinn skall yfir landið. 

Heimildamaður fréttastofunnar Al Jazeera sagði frá því hvernig hermenn sem komu til þorps hans stýrðu matardreifingu. „Þeir létu einn fulltrúa frá hverri fjölskyldu fá miða með númeri og hermennirnir héldu síðan happdrætti. Hundrað fjölskyldur fengu eitt egg, sex dósir af þurrmjólk og eina kartöflu. Aðrir fengu ekki neitt.“

Fyrrverandi hermaður frá Búrma sagði fréttastofunni líka að þrátt fyrir neyðina heimtuðu hermenn ennþá peninga af flóttamönnum sem færu gegnum landamærastöðvar á leið sinni til Thailands.

 Aðstoð vantar víða 

Hjálparstofnanir hafa áhyggjur af því að mikið mannfall vegna hungurs og sjúkdóma eigi eftir að verða á hrjáðum svæðum þar sem hreint vatn og aðrar nauðsynjar vanti. Sameinuðu Þjóðirnar segja í nýlegri yfirlýsingu að mikill skortur sé á fullnægjandi aðstoð á neyðarsvæðunum.

Sérstaklega hefur gengið illa að koma hjálp til Irrawaddy svæðisins sem varð sérstaklega illa úti í hörmungunum. Stjórnvöld í landinu nota aðeins sjö þyrlur til afnota á svæðinu og hafa því flestir flutningar farið með bátum eða með flutningabílum. Fáir bátar ráða við siglingar á torfærum síkjunum og vegirnir eru flestir malarvegir. Illa hefur gengið að flytja inn báta og flutningabíla vegna skrifræðis í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert