Fjórir enn á sjúkrahúsi í Gautaborg

Leiktækið sem bilaði í Liseberg í gær.
Leiktækið sem bilaði í Liseberg í gær. Reuters

Fjórir þeirra, sem slösuðust þegar vagn í leiktæki losnaði í skemmtigarðinum í Liseberg í Gautaborg í Svíþjóð, eru enn á sjúkrahúsum í borginni. Enginn er þó talinn í lífshættu. Ekki er enn ljóst hvað olli slysinu. Lögregla rannsakar málið og segir ekkert benda til þess að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Að sögn blaðsins Dagens Nyheter er 15 ára unglingur, sem hlaut innvortis áverka, enn á barnasjúkrahúsi Silvíu drottningar í Gautaborg. Þangað voru fluttir 23 eftir slysið í gær. Einnig var fólk flutt á  Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið þar sem tveir liggja enn, Mölndals sjúkrahúsið og  Kungälvs sjúkrahúsið þar sem einn liggur enn. Alls voru 33 fluttir á sjúkrahúsin.  

Mikill mannfjöldi var í skemmtigarðinum í gær enda stendur Gothia Cup, alþjóðlegt knattspyrnumót ungmenna, nú sem hæst í Gautaborg. 15  þeirra sem slösuðust tengdust mótinu. Um 350 íslensk ungmenni taka þátt í mótinu en ekkert þeirra var í leiktækinu þegar slysið varð.

Ekki er ljóst hvað olli slysinu en getgátur hafa verið um að kúlulega hafi brotnað. Leiktækið, sem nefnist Rainbow, er 25 ára gamalt en það var endurnýjað árið 2003.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert