Þrettán eru látnir á Haítí og í Dóminíska lýðveldinu en hitabeltisstormurinn Gustav gengur nú yfir eyjuna þar sem ríkin eru. Mikið úrhelli fylgir Gustav, sem er ekki lengur skilgreindur sem fellibylur heldur hitabeltisstormur. Vindhraði Gustavs er nú 95 km á klukkustund. Hefur verið varað við því að Gustav geti náð styrk fellibyls á ný á morgun er hann fer yfir Jamaíka og suðausturströnd Kúbu.
Mikill viðbúnaður er vegna veðurofsans og hefur ríkisstjóri Louisiana, Bobby Jindal, virkjað samhæfingarstöð vegna mögulegrar komu Gustavs. „Svo lengi sem það er möguleiki að stormurinn ríði hér yfir þá verð ég í Louisiana," sagði Jindal og sagði að það gæti kostað hann að mæta á flokksþing Repúblikanaflokksins í næstu viku þar sem John McCain verður formlega tilnefndur sem forsetaframbjóðandi flokksins.
Að minnsta kosti fimm eru látnir og sjö slasaðir eftir að stormurinn gekk yfir suðausturhluta Haítí. Í Dóminíska lýðveldinu létust átta í aurskriðu og voru þeir allir úr sömu fjölskyldu. Hafði fólkið nýverið snúið til síns heima eftir að hafa yfirgefið heimili sitt fyrir tveimur vikum er hitabeltisstormurinn Fay reið yfir.