Ríkisstjóri Louisianaríkis í Bandaríkjunum lýsti í kvöld yfir neyðarástandi í ljósi þess að fellibylurinn Gustav stefnir á ríkið. Hefur þjóðvarðlið verið sett í viðbragðsstöðu.
Ef veðurspár ganga eftir gæti Gustav skollið á strönd Louisiana um helgina og þá verið fellibylur af þriðju gráðu. Veðurfræðingar segja þó erfitt að spá fyrir um hvaða leið óveðrið fer.
3000 þjóðvarðliðar verða kallaðir til starfa sólarhring áður en óveðrið skellur á og hægt er að kalla 2000 út til viðbótar ef þurfa þykir. 300 þjóðvarðliðar eru þegar að störfum í New Orleans en sú borg hefur ekki borið sitt barr frá því fellibylurinn Katrina fór yfir hana árið 2005.