Hitabeltisstormurinn Gustav kom á land á Jamaíka í nótt og fylgdu honum miklar rigningar og fuku þök af heimilum. Vindhraði mældist mestur 100 km/klst í morgun.
Allt flug hefur legið niðri á Jamaíka og fyrirskipuðu yfirvöld að íbúar héldu sig inni. Óttast er að miklar rigningar geti valdið flóðum og aurskriðum.
Fimmtíu og níu manns hafa látið lífið frá því stormurinn fór yfir Haíti og Dóminíska Lýðveldið.
Yfirvöld í Louisiana og Mississippi hafa lýst yfir neyðarástandi en búist er við að Gustav fari yfir Mexíkóflóa og komi á land við strendur ríkjanna seint á mánudag, og er því spáð að styrkur Gustavs gæti aukist og breyst í öflugan fellibyl. Þrjú ár er liðin frá því fellibylurinn Katrina olli miklu tjóni í New Orleans í Louisiana, og eru yfirvöld í borginni þegar farin að undirbúa aðgerðir.
Veðurfræðingar hafa spáð því að Gustav færist frá Jamaíka seinnipartinn í dag og fari í átt að Cayman eyjum. Búist er við að Gustav breytist í fellibyl í kvöld eða um helgina, að sögn Bandarísku fellibyljarstofnunarinnar.