Nýstofnuð dönsk samtök bjóða nú færeyskum konum aðstoð við fóstureyðingar en færeysk lög um fóstureyðingar eru afar ströng. Samtökin bjóða færeyskum konum að útvega þeim fóstureyðingarlyf frá hollenskum lækni, svo framarlega sem konurnar eru ekki komnar lengur en 9 vikur á leið. Eftir það segjast samtökin geta haft milligöngu um fóstureyðingar á danskri læknastöð.
Hanne Bille, stofnandi samtakanna Aborthjalp.nu, segir við danska blaðið Kristeligt Dagblad, að hún vilji aðstoða ungar konur í Færeyjum, sem ekki ráði yfir fjármunum eða félagslegri aðstöðu til að leita á eigin vegum eftir fóstureyðingum.
Bille hefur áður aðstoðar færeyskar konur við fóstureyðingar og segist fá að jafnaði eina fyrirspurn þaðan á mánuði undanfarin tvö ár. Hún segir að Aborthjalp.nu fái fjárhagslegan stuðning frá dönskum og færeyskum aðilum. Þeir færeysku vilji hins vegar ekki koma fram undir nafni vegna stöðu þeirra í færeysku samfélagi.
Þetta mál hefur valdið uppnámi í Færeyjum. Jenis av Rana, leiðtogi Miðflokksins, segist reikna með að lögreglan rannsaki málið en ella muni flokkurinn kæra dönsku samtökin þar sem þau hvetji færeyskar konur til að brjóta lög og stundi þannig hryðjuverkastarfsemi gagnvart lýðræðislegu samfélagi.
Hann segir við Kristeligt Dagblad, að í raun séu frjálsar fóstureyðingar í Færeyjum því konur geti alltaf fundið lækna, sem séu tilbúnir til að skrifa upp á fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Það verði að loka þeirri smugu því fóstureyðingar séu engin lausn heldur verði að ráðast að hinum félagslega vanda.
Í Færeyjum eru enn í gildi dönsk fóstureyðingarlög frá árinu 1956. Samkvæmt þeim á kona því aðeins rétt á fóstureyðingu, að líf hennar sé í hættu, fóstrið sé alvarlega veikt eða að konan sé fórnarlamb kynferðisbrots.
Um 50 færeyskar konur fá fóstureyðingu að jafnaði á ári. Færeyska lögþingið hefur sett það markmið, að þessi tala verði um 10.