Ræðismaður Íslands í New Orleans, Greg Jamison Beuerman, var við það að yfirgefa heimili sitt í New Orleans vegna fellibyljarins þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.
Hann sagði að hann hefði ekki fengið nein símtöl frá Íslendingum sem byggju í New Orleans eða nágrenni en að hægt væri að ná í hann í síma hvenær sem væri ef fólk þyrfti á aðstoð að halda.
Beuerman segir að Íslendingum í New Orleans og nágrenni hafi snarfækkað eftir fellibylinn Katrínu fyrir þremur árum. Íslenskir háskólastúdentar hafi fært sig um set í Bandaríkjunum eða jafnvel flutt aftur heim þar sem ekki hafi verið hægt að halda uppi skólastarfi í háskólum New Orleans í nokkurn tíma eftir hamfarirnar.
Beuerman var í New Orleans þegar Katrína skall á árið 2005 og var í fimm daga við björgunarstörf í kjölfarið uns hann fór til fjölskyldu sinnar í Tennessee.Beuerman segir að skipulagning nú sé mun betri en fyrir þremur árum og að það líti út fyrir að öllum þeim sem á aðstoð þurfi að halda verði sinnt.