Í þrjú ár hefur hún hjálpað fólki að komast yfir áfallið sem fellibylurinn Katrína olli í New Orleans. Ónýt hús, auðar götur og óvissa fara ekki mjúkum höndum um neinn. Hún hefur skipulagt sálfræðiráðgjöf fyrir þúsundir borgarbúa – fólk sem enn er í áfalli eftir að borgin lagðist nánast í rúst. Núna trúir hún því vart að stór fellibylur sé aftur á leiðinni. Sálfræðingnum Michele Louivere í New Orleans líst ekki á blikuna.
„Fólk er skiljanlega í miklu uppnámi. Við biðjum bara og vonum að þetta verði ekki jafnslæmt og það lítur út fyrir núna,“ sagði hún þegar ég náði í hana í gær. Hún var flúin ásamt fjölskyldu sinni til ættingja sem búa inni í landi, í nokkurra klukkustunda akstursfjarlægð frá borginni.
„Hérna munum við væntanlega einnig verða fyrir fellibylnum en þurfum að minnsta kosti ekki að eiga við flóðið í kjölfar hans,“ sagði hún. Eins og aðrir borgarbúar getur Michele einungis vonað að Gústav gangi á land nógu langt frá New Orleans til að yfir borgina gangi ekki stór flóðbylgja. Það yrði ekki auðvelt að takast á við afleiðingar annars fellibyls.
Uppbygging eftir Katrínu hefur gengið hægt. Enn í dag búa þúsundir í bráðabirgðahúsnæði – þröngum húsvögnum frá bandarísku almannavörnunum. Enn eru margir skólar og sjúkrahús lokuð, mörg hverfi nánast auð.
Katrína gekk á land hinn 29. ágúst 2005. Sjúkir, gamlir og fátækir voru skildir eftir í sökkvandi borg – jafnvel þótt borgarstjórinn hefði fyrirskipað að New Orleans skyldi tæmd áður en fellibylurinn gengi á land. Engar ráðstafanir voru gerðar til að flytja í burtu þá tæplega 100.000 borgarbúa sem ekki höfðu aðgang að bíl. Hvernig áttu þeir að koma sér í burtu?