Rove segir árásir forsetaframbjóðenda hafa gengið of langt

Karl Rove hefur til þessa ekki kallað allt ömmu sína …
Karl Rove hefur til þessa ekki kallað allt ömmu sína í kosningabaráttu en honum blöskrar tónninn nú. Reuter

Karl Rove, einn helsti sérfræðingur bandarískra repúblikana í kosningabaráttu, sagði í sjónvarpsþætti bandarísku Fox sjónvarpstöðvarinnar í gærkvöldi, að forsetaframbjóðendurnir tveir, John McCain og Barack Obama, hafi gengið of langt í árásum hvor á annan. 

Rove sagði, að auglýsing frá framboði Obamas þar sem McCain er gagnrýndur fyrir að kunna ekki á tölvupóst, sé óréttmæt.

„Hann getur ekki notað lyklaborð vegna áverka sem hann fékk sem stríðsfangi. Hann getur ekki vélritað.  Þetta er eins og að segja, að hann geti ekki gert leikfimisæfingar," sagði Rove.

Þegar gengið var á Rove viðurkenndi hann að framboð McCains hefði gert sig sekt um svipaða hluti.

„McCain hefur, í nokkrum auglýsingum, einnig gengið of langt og eignað Obama ýmsa hluti, sem eru handan hins endanlega sannleiksprófs," sagði Rove.   

Rove sagði að þessar hörðu árásir framboðanna væru mistök. „Þeir þurfa ekki að ráðast hvor á annan með þessum hætti. Þeir geta gagnrýnt hvor annan með réttmætum hætti."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert