Lögregla í Finnlandi segir þörf á nánara eftirliti með netinu og því sem þar birtist. Bæði Matti Juhani Saari, sem skaut 10 manns til bana í skóla í Kauhajoki í dag og Pekka Eric Auvinen sem myrti átta í skóla í Jokela á síðasta ári birtu myndskeið með hótunum áður en þeir létu til skarar skríða.
„Við fylgjumst með netinu að ákveðnu marki en við getum ekki rannsakað allar hótanir, sem þar birtast. En við erum stöðugt að þróa leitarvélar sem vara við því þegar eitthvað, sem hægt er að túlka hótanir, birtist," segir Tero Haapala, einn af yfirmönnum finnsku ríkislögreglunnar, í samtali við Hufvudstadsbladet í Finnlandi.
„Eftir þessa atburði er ljóst að við verðum að þróa þessa tækni betur. Það er hins vegar stjórnmálamanna að ákveða hvort hert verður á vopnalögunum," segir Haapala.
„Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þeir sem vilja komast yfir skotvopn geta það innan ramma núgildandi laga."