Búast við umræðu um vopnalöggjöf

Búist er við því að skotárásin í iðnskólanum í Kauhajoki í Finnlandi leiði til mikillar umræðu og hugsanlega endurskoðunar á finnskri vopnalöggjöf.

Samkvæmt finnskum lögum er unglingum allt niður í 15 ára aldur heimilt að bera skotvopn séu foreldrar viðkomandi því samþykkir. Í kjölfar skotárásarinnar í skóla í Jokela í nóvember sl. þar sem átta nemendur létu lífið spratt upp mikil umræða um vopnalöggjöfina í Finnlandi. 

Í samtali við vef danska sjónvarpsstöðvarinnar DR2 er haft eftir Niels Kås Dyrlund, sendiherra Finna í Danmörku, að Finnar hafi talið skotárásina í Jokela einstæðan atburð og því ekki séð ástæðu til þess að endurskoða vopnalöggjöfina. 

„Skotvopnaeign er býsna algeng í Finnlandi og þjónar ekki hvað síst þeim tilgangi að hægt sé að verja sig fyrir villtum dýrum. Það helgast ekki síst af stærð landsins og miklum skógvexti. Þannig að stjórnmálamenn nálgast vopnalöggjöfina með varfærnislega,“ segir Dyrlund sem er þó ekki í vafa um að umræðan um skotvopnaeign unglinga á aldrinum 15-18 ára muni blossa upp að nýju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert