Níu manns létust og tveir eru alvarlega særðir í kjölfar skotárásarinnar í finnska bænum Kauhajoki í morgun. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem finnska lögreglan hélt kl. 11 að íslenskum tíma. Danska ríkissjónvarpið greinir frá þessu á vef sínum.
Hluti af skólabyggingunni brann í morgun, en slökkvilið bæjarins hefur nú náð stjórn á eldinum.
Skotárásin hófst stundarfjórðungi yfir átta í morgun að íslenskum tíma þegar hinn 22 ára gamli árásarmaður hóf að skjóta á samnemendur sína. Áætlað er að um 200 nemendur hafi verið í skólabyggingunni á þeim tíma.
Lögreglan á staðnum hóf þegar að aðstoða þá sem á staðnum voru við að komast burt úr byggingunni. Nemendum og starfsfólki skólans býðst nú áfallahjálp.