Skotárás var gerð í skóla í Kauhajoki í Finnlandi nú í morgun og er óttast að margir kunni að vera látnir. Samkvæmt upplýsingum frá finnsku lögreglunni hefur árásarmaðurinn verið handtekinn.
Eftir því sem fram kemur á vef danska sjónvarpsmiðilsins DR 2 hófst skotárásin í skólanum stundarfjórðungi yfir 8 í morgun að íslenskum tíma. Vitað er að árásarmaðurinn er tvítugur nemandi við skólann. Hann byrjaði að sögn sjónvarvotta skyndilega að skjóta á þá 200 nemendur sem í skólanum eru. Haft er eftir lögreglunni að neminn notist við öflugt skotvopn og hafi hleypt ótal sinnum af.
Finnska lögreglan vinnur nú að því að rýma bygginguna þar sem árásarmaðurinn enn dvelur. Samkvæmt sænska dagblaðinu Dagens nyheter á árásarmaðurinn að hafa læst sig inni í einni af kennslustofunum. Sömu heimildir herma að reykur stígi upp frá skólanum.
Samkvæmt vef finnska útvarpsins hafa á síðustu dögum ratað inn upptökur þar sem gefur að líta ungan mann með skammbyssu. Síðasta myndskeðið birtist á vefnum fyrir fimm dögum, en elsta myndskeiðið er þriggja vikna gamalt. Ekki hefur enn verið staðfest að maðurinn í myndskeiðunum sé árásarmaðurinn, en á You Tube upplýsir hann að hann eigi heima í Kauhajoki.
Kauhajoki, sem er 15 þúsund manna bær, liggur í suðvesturhluta Finnlands, um 350 km norðvestur af höfuðborginni Helsinki.
Ekki er nema ár síðan síðasta skotuppákoman varð í Finnlandi þegar ungur maður gekk berserksgang í skóla í Jokela og varð átta að bana.