Maður margra orða — og mismæla

Joseph Biden
Joseph Biden JIM YOUNG

Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, varaforsetaefni Baracks Obama, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins 2008, er enginn nýgræðingur á vettvangi stjórnmálanna. Hann er nánast hokinn af reynslu eftir 35 ár sem öldungadeildarþingmaður fyrir heimaríki sitt, Delaware, og setur og formennsku í ótal ráðum og nefndum. Ævinlega hefur hann verið óðfús að bjóða sig fram til frekari embætta, t.d. tvisvar sóst eftir tilnefningu flokks síns til forsetaembættisins, 1988 og 2007, en í bæði skiptin dregið framboð sitt til baka.

Reynslan er helst talin Biden til tekna, hún er sögð bæta upp mesta veikleika Obama; þekkingar- og reynsluleysi í öryggis- og utanríkismálum. Stuðningsmenn Johns McCains, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, voru fljótir að henda á lofti að Obama treysti sér einfaldlega ekki í slaginn án handleiðslu gamalreynds stjórnmálarefs. Andstæðingunum þótti valið ennfremur til marks um að slagorð Obama um „breytingar“ væri hjómið eitt.

McCain-liðar settu síðan í auglýsingu þau ummæli Bidens „að Obama væri ekki tilbúinn“, sem hann viðhafði í baráttunni um útnefninguna. Til gamans splæstu þeir svo saman í auglýsinguna ummælum hans frá 2005 „að honum [Biden] þætti heiður að fara fram með eða á móti McCain“. Þeim ósmekklegustu þótti líka fyndið að nota „Obama Bin Biden“ um tvíeykið, en aðallega þó í tölvupóstum.

Hagvanur í höfuðborginni

Þótt fáir efist um að reynsla Bidens komi Obama til góða í kosningabaráttunni – og forsetaembættinu, ef til þess kæmi, vega vonir um atkvæði hvítu milli- og verkamannastéttanna ekki síður þungt. Obama hefur átt erfitt með að vinna þær á sitt band, öfugt við Biden – sem líka, öfugt við Obama, vílar ekki fyrir sér og virðist hafa gaman af að þjarma að McCain í orðræðunni. Þannig bæta þeir Obama og Biden hvor annan upp.

Joe Biden er þekkt andlit í bandarískum stjórnmálum, hagvanur í Washington og hefur átt samskipti við háttsetta embættismenn og þjóðhöfðingja um allan heim. Honum er jafnan lýst sem líflegum og baráttuglöðum pólitíkus, áhrifamiklum ræðumanni, að vísu fullorðmörgum og með tilhneigingu til að koma klaufalega fyrir sig orði, heiðarlegum – með örfáum undantekningum, sem síðar verður vikið að, alþýðlegum en þó myndugum mjög.

Miðað við umfjöllun fjölmiðla og heimsóknir á vefinn hitwise.com, sem mældi hversu oft var leitað upplýsinga á netinu um Biden og Sarah Palin, ríkisstjóra Alaska og varaforsetaefni McCains, voru mun fleiri forvitnir um frúna að norðan. Hún var enda lítt þekkt í bandarísku þjóðlífi og trúlega hefur kjósendum þótt þeir þegar vita flest um Biden sem vert væri að vita.

Á Íslandi gegnir trúlega svolítið öðru máli og því sakar ekki að stikla á örfáum atriðum í lífi, leik og starfi hugsanlegs varaforseta Bandaríkjanna.

Stam og svik

Biden, sem er elstur fjögurra systkina, var tíu ára þegar foreldrar hans; móðir af írskum uppruna og faðir af enskum, ákváðu að flytjast búferlum með börn sín frá Pennsylvaníu til Claymont í Delaware, þar sem atvinnuhorfur voru vænlegri. Föðurfjölskylda hans hafði verið vellauðug, en tapað öllu sínu og því var tími pólóleikja og snekkjusiglinga Josephs eldri löngu liðinn þegar hann fékk starf sem bílasali í New Castle-sýslu og fjölskyldan festi rætur í Delaware. Þau töldust til millistéttarinnar þótt fátæk væru.

Biden stamaði mikið sem barn og unglingur en tókst að ná tökum á vandanum með því að æfa sig löngum stundum í ljóðalestri fyrir framan spegil.

Hann var slakur námsmaður, latur að eigin sögn, en góður í íþróttum og sjálfskipaður leiðtogi nemenda í Archmere Academy-framhaldsskólann í Claymont, þaðan sem hann útskrifaðist 1961. Ekki tók hann sig á svo heitið gæti þegar í Delaware-háskólann var komið, var 506. í röðinni af 688 nemendum, sem útskrifuðust með BA í sögu og stjórnmálafræði 1965. Því var ekki úr háum söðli að detta þegar hann varð 76. af 85 við útskrift úr Syracuse-lagaháskólanum í New York 1968.

Fyrsta árið hafði ekki verið gæfulegt því Biden var sakaður um ritstuld úr lagatímariti í prófi. Óviljandi, sagði hann, og bar við að sér hefði ekki verið kunnugt um reglur um tilvitnanir. Hann fékk F, en var leyft að taka önnina aftur og F-ið var látið niður falla. Geymt en þó ekki gleymt, eins og nú hefur komið á daginn.

Herkvaðning og harmleikur

Á sjöunda áratugnum fékk Biden fimm sinnum frestun á herkvaðningu, í fyrsta skipti 1963 og síðasta 1968 þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst og staða hans var endurskoðuð. Honum var hafnað á þeirri forsendu að hann þjáðist af asma sem unglingur. Biden kveðst hvorki hafa tekið þátt í andófi gegn stríðinu né skrýðst upplituðum hippabol, heldur verið upptekinn af borgaralegum gildum svo sem hjónabandi sínu og laganámi.

Hann hafði kvænst Neilia Hunter 1966. Þau eignuðust þrjú börn á þremur árum, 1969-1971 og allt virtist ganga þeim í haginn.

Að námi loknu hóf Biden störf sem lögfræðingur í Wilmington og var fljótlega kosinn í sveitarstjórn New Castle-sýslu og sat þar til 1972 þegar hann, mörgum til undrunar, vann sæti Delaware í öldungadeildinni. Hann hafði háð kosningabaráttuna af vanefnum, en með góðan málstað; lagt áherslu á brottflutning hermanna frá Víetnam, umhverfismál, mannréttindi og „breytingar“. Hin, unga og geðþekka fjölskylda er sögð hafa átt sinn þátt í sigrinum, auk eldmóðs hans sjálfs og hæfileika til að ná til kjósenda.

En fljótt skipast veður í lofti. Hinn 18. desember sama ár lentu eiginkona hans og börn í alvarlegu bílslysi sem dró hana og nokkurra mánaða dóttur þeirra til dauða. Þótt sonunum tveimur væri vart hugað líf náðu þeir að lokum fullum bata.

Biden íhugaði að afsala sér sæti sínu í öldungadeildinni til að geta annast drengina, en lét undan fortölum og sór embættiseið sinn við sjúkrabeð þeirra 3. janúar 1973, aðeins þrítugur að aldri.

Frá þeim degi hefur Biden tekið lestina frá heimili sínu í Wilmington til vinnu sinnar í Washington og til baka og gerir enn. Hann hefur enn þann háttinn á þótt ferðirnar taki samtals einn og hálfan tíma. Þeim tíma finnst honum vel varið til að kynnast fólki í kjördæmi sínu.

Í þinginu gaf Biden þau fyrirmæli að ef synir hans hringdu ætti undir öllum kringumstæðum að gera honum viðvart. Hann heiðrar ennþá minningu konu sinnar og dóttur á dánardægri þeirra 18. desember og mætir ekki til vinnu.

Mismunandi lexíur

Eins og alsiða er í Bandaríkjunum gekk maður undir manns hönd að reyna að para einhleypt fólk saman. Biden kynntist Jill Tracy Jacobs, kennara frá Pennsylvaníu, á „blindu stefnumóti“, sem bróðir hans hafði komið á. Þau giftust 1977 og eignuðust dóttur 1981.

Í viðtali við The Times sagði Biden einhverju sinni að hann hefði lært mismundandi lexíur af þremur mestu harmleikjum lífs síns; dauða eiginkonu og dóttur, eigin veikindum 1988, og pólitísku axarskafti, sem engum varð svo sem meint af nema honum sjálfum. Honum er enn nuddað upp úr klúðrinu og um leið er jafnan rifjaður upp meintur ritstuldur í lagadeildinni forðum. Biden varð það nefnilega á 1987, þegar hann sóttist eftir tilnefningu til forsetaembættisins, að halda ræðu sem að hluta var eins og ræða sem Neil Kinnock, þá leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hafði haldið:

„Hvers vegna er ég sá fyrsti af Kinnock-ættinni í þúsund kynslóðir, sem get farið í háskóla? [Kinnock benti á konu sína í áheyrendahópnum] Hvers vegna er það að kona mín sem situr meðal áheyrenda er sú fyrsta í sinni fjölskyldu til að fara í framhaldsskóla? Var það vegna þess að allir forfeður okkar voru heimskir?“ sagði Kinnock meðal annars. Biden sneri orðunum upp á sig og sitt fólk og sýndi sömu leikrænu tilþrifin þegar hann benti á eiginkonu sína.

Pínlegt þegar upp komst um kauða.

Merkileg mál

En eins og Biden sagði í ræðu sinni 28. ágúst þegar hann var formlega tilnefndur varaforsetaefni á flokksþinginu í Denver, Colorado: „Mistök upp að einhverju marki eru óhjákvæmileg í lífi fólks, en það er ófyrirgefanlegt að gefast upp.“

Það gerði hann ekki heldur þegar hann veiktist lífshættulega í ársbyrjun 1988 og var lagður á sjúkrahús þar sem hann þurfti í tvígang að gangast undir skurðaðgerð vegna heilablæðingar. Eftir sjö mánaða veikindaleyfi mætti hann aftur til starfa í öldungadeildinni, endurnærður að því er virtist.

Tæpast er hægt að fjalla um Biden án þess að nefna aðkomu hans að tveimur sögufrægustu yfirheyrslum bandarísku dómsmálanefndarinnar yfir tilnefndum hæstaréttardómurum. Annars vegar 1987, skömmu fyrir veikindin, þegar hann stjórnaði yfirheyrslum yfir Robert Bork, íhaldskurfi miklum að mati Edwards Kennedys og fleiri frjálslyndra demókrata, sem fordæmdu Bork harðlega. Honum var hafnað en Biden hampað fyrir að komast lipurlega frá verkefninu.

Hins vegar 1991 þegar Clarence Thomas var tilnefndur í embættið, en hann var ásakaður fyrir að hafa áreitt fyrrverandi samstarfskonu sína, Anitu Hill, kynferðislega. Yfirheyrslan var í beinni útsendingu á öllum stærri sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna og þótti farsakennd. Til þess var tekið að Biden var stundum svo orðmargur að Thomas var búinn að steingleyma spurningunni þegar hann loks þagnaði.

Þótt margir stæðu með Thomas var afar umdeilt þegar Biden staðfesti tilnefningu hans í embætti hæstaréttardómara, sérstaklega urðu femínistar æfir. Thomas gegnir embættinu ennþá.

Sem öldungadeildarþingmaður með sæti í dómsmálanefnd og utanríkismálanefnd í öll þessi ár hefur Biden komið að mörgum málum og fjallað um það sem efst er á baugi.

Sjálfur segist hann stoltastur af þætti sínum í lögum frá 1994 um að stöðva heimilis- og kynferðisofbeldi gegn konum og börnum sem jafnframt fela í sér að samfélagið hjálpi fórnarlömbunum að koma lífi sínu á réttan kjöl. Á heimasíðu Bidens er fullyrt að frá því lögin tóku gildi hafi ofbeldi af þessu tagi minnkað verulega og réttlætinu hafi verið fullnægt í dómsölum í málum milljóna kvenna.

Biden hefur lagt fram hugmyndir sínar um bætta heilbrigðisþjónustu, þar sem fleiri nytu sjúkratrygginga og betra aðgengis. Sem formaður alþjóðlegrar nefndar um að stemma stigu við eiturlyfjavandanum samdi hann lög, sem byggjast á fjölþættum aðgerðum, eftirliti og samræmdri stefnu gegn þessum margmilljarða dollara bransa, helsta hvata glæpa og sundrungar fjölskyldna og samfélags, eins og Biden segir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert