Hu Jintao Kínaforseti kom í gær í opinbera heimsókn til Havana á Kúbu þar sem honum og eiginkonu hans, Lu Yongqing, var tekið með kostum og kynjum. Viðskipti ríkjanna hafa stóraukist á síðustu árum.
Kínverjar eru þannig önnur mesta viðskiptaþjóð Kúbverja á eftir Venesúela en í fyrra nam verðmæti verslunarinnar 2,3 milljörðum dala, um 310 milljörðum íslenskra króna á núvirði.
Aukningin í verslun Kínverja við ríki Rómönsku-Ameríku hefur verið ótrúlega hröð. Árið 2000 nam verðmæti verlsunarinnar 13 milljörðum dala, en fór í fyrra upp fyrir 100 milljarða dala markið.
Þótt kommúnistar fari með stjórn í báðum ríkjunum er mikill munur á stjórnarfarinu.
Á Kúbu, eyju sem telur um 11,3 milljónir manna, fer miðstjórn kommúnista með stjórn efnahagsmála.
Stjórnin hefur að undanförnu slakað á ýmsum höftum frá því að Raúl Castro tók við stjórnartaumunum af bróður sínum Castro og meðal annars leyft eyjaskeggjum að eignast kínverska örbylgjuofna, svo eitthvað sé nefnt.
Íbúafjöldi Kína er hins vegar um 120 sinnum meiri og þar hafa héruðin mikla sjálfsstjórn. Þar hefur einnig verið innleiddur villtur kapítalismi og hagkerfið fram að þessu mjög reitt sig á útflutning framleiðsluvara.
Hagkerfi Kúbu er hins vegar næsta einsleitt og mikillar fjárfestingar þörf á hinum ýmsu sviðum.