Slagkraftur Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi mun minnka á næstu tveimur áratugum, á sama tíma og áhrif Kínverja og Indverja, fjölmennustu þjóða heims, munu aukast, að mati sérfræðinga í bandarísku leyniþjónustunni.
Þetta mat er lagt fram í greinargerð stofnunarinnar National Intelligence Council (NIC), þar sem farið er yfir fyrirséðar breytingar í alþjóðakerfinu og þær settar í samhengi við varnir landsins.
Kemur þar fram að Bandaríkjadalurinn verði ekki lengur helsti gjaldmiðillinn og að deilur um aðgengi að vatni og matvælum muni brjótast út í vopnuðum átökum, þróun sem loftslagsbreytingar muni ýta undir.
Greinargerðin, sem heitir Global Trends 2025, er lögð fram á fjögurra ára fresti í aðdraganda nýrrar embættistíðar forseta og er lesningin sögð heldur dauf fyrir hinn nýkjörna forseta, Barack Obama, sem tekur við búi þegar Bandaríkin byrja hægt og sígandi að glata óumdeildu forystuhlutverki sínu eftir lok kalda stríðsins.
Við tekur skeið þar sem völdin færast á hendur fleiri póla, um leið og þungamiðjan færist til austurs.
Um töluverða breytingu á stöðumati er að ræða frá síðustu greinargerð, sem lögð var fram eftir endurkjör George W. Bush í embætti forseta, og er sú að valdapólunum fjölgar talin munu auka líkur á spennu í alþjóðakerfinu.
En allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og fram að upplausn Sovétríkjanna 1991 deildu Bandaríkin og Sovétríkin völdunum á alþjóðasviðinu, ef svo má segja.
Metur stofnunin það svo að við því skeiði þar sem Bandaríkin séu ráðandi í alþjóðakerfinu taki við annað og óvissara þar sem hraðvaxandi ríki, fyrst og fremst Kína og Indland og í minna mæli Brasilía, muni leiða til frekari valddreifingar.
Þessi sviðsmynd gæti vel reynst röng en hitt er skýrt að það mat að loftslagsbreytingar beri að taka inn í öryggisgreiningu ætti að styðja við skref Obamas í átt til alþjóðlegrar samvinnu á því sviði.
Um leið kann slík greining að leiða til víðtækari sáttar í Bandaríkjunum um margvíslegar aðgerðir til að stöðva aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu, einkum í ljósi þess að margar þeirra munu reynast dýrar.
Kostnaðurinn við þær er þó ekki mikill séu útgjöld til hermála vestanhafs notuð sem mælikvarði í því samhengi.