Danski viðskiptajöfurinn Stein Bagger sem sakaður var um stórfelld fjársvik gaf sig fram við yfirvöld í Kaliforníu á laugardagskvöld, að sögn fréttavefjarins berlingske.dk. Vefurinn hefur þetta eftir efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar og segir að Bagger sé nú í haldi yfirvalda í Kaliforníu.
Dönsk yfirvöld vinna nú að því að fá Bagger framseldan. Lögreglumaður sagði í viðtali við jp.dk að ekki sé vitað hvenær von er á Bagger til Danmerkur. Bagger mun hafa látið vita af sér fyrr á laugardag í gegnum blogg Bagger fjölskyldunnar. Skilaboðin stóðu þar þó aðeins í stundarfjórðung.
Bagger var forstjóri upplýsingatæknifélagsins IT-Factory. Hann hvarf þar sem hann var í Dubai fyrir rúmri viku. Í kjölfarið kom í ljós að hann hafði dregið sér á annan milljarð danskra króna með því að gefa út falska reikninga fyrir hönd fyrirtækisins.