Vilja játa sök um hryðjuverk

Frá fangabúðunum við Guantanamóflóa á Kúbu
Frá fangabúðunum við Guantanamóflóa á Kúbu Reuters

Khalid Sheikh Mohammed, sem er talinn hafa skipulagt hryðjuverkaárásina á Bandaríkin þann 11. september 2001 hefur óskað eftir því við dómara við herdómstól í fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantanamóflóa að fá að játa sig sekan. Auk Mohammed hafa fjórir meintir samverkamenn hans lagt fram sömu ósk. Ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér dauðadóm en 2.973 létust í árásunum.

Ætlar dómarinn að fara yfir ósk fanganna og yfirheyra þá til þess að tryggja að játningin komi frá þeim sjálfum.

Bandaríska leyniþjónustan CIA viðurkenndi fyrr á árinu að hafa beitt vatnspyntingum við yfirheyrslur yfir Mohammed, sem játaði að hann hefði skipulagt hryðjuverkin.

Óvissa ríkir um framtíð fangabúðanna þar sem um 250 meintir hryðjuverkamönnum er haldið föngum. Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að láta loka búðunum en meðferð fanganna hefur verið harðlega gagnrýnd víða um heim, að því er fram kemur á vef BBC.

Auk Mohammed verður réttað yfir Ramzi Binalshibh, Jemeni sem átti að taka þátt í flugránunum þann 11. september en var hafnað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.  Á hann að hafa aðstoðað við undirbúning árásanna.

Mustafa Ahmad al-Hawsawi, Sádí-Arabi sem CIA telur hafa komið að fjármögnun hryðjuverkanna.  Ali Abd al-Aziz Ali, sem einnig er þekktur undir heitinu Amar al-Balochi, en hann er ákærður fyrir að hafa aðstoðað Mohammed, frænda sinn, við undirbúninginn. Walid Bin Attash, Jemeni sem er talinn hafa staðið á bak við sprengjutilræði í Jemen árið 2000 auk þess að hafa aðstoðað við hryðjuverkin 11. september.

Mohammed, sem áður var einn af æðstu mönnum al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna, játaði fyrir herrétti á síðasta ári að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Á hann einnig að hafa viðurkennt aðild að 30 öðrum hryðjuverkum eða áætlunum um þau.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hafði eftir Mohammed í fyrra, að í kjölfar árásanna 11. september 2001 hafi átt að ráðast á háhýsi í Los Angeles, Seattle og Chicago og á Empire State-bygginguna í New York. Einnig segir, að Mohammed hafi játað aðild að samsæri um að myrða Jóhannes heitinn Pál II páfa og Bill Clinton og Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þá játaði hann að hafa myrt bandaríska blaðamanninn Daniel Pearl í Pakistan.

Mohammed var handtekinn í Pakistan 2003. Hann var fluttur til Guantanamó árið 2006 eftir að hafa verið í haldi Bandaríkjamanna í leynilegu fangelsi um þriggja ára skeið.

Khalid Sheikh Mohammed
Khalid Sheikh Mohammed mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert