„Ég er eftirlýstur í Danmörku vegna þess að ég hef stolið milljarði dala." Þetta hefur lögregluforingi í Los Angeles eftir danska kaupsýslumanninum Stein Bagger, sem á laugardagskvöld kom inn á lögreglustöð í borginni og gaf sig fram.
Danska Ekstra-Bladet rædd við Paul Vernon, yfirlögregluþjón á stöðinni þar sem Bagger gaf sig fram. Í Danmörku er talið, að Bagger hafi dregið sér rúman milljarð danskra króna úr rekstri fyrirtækisins IT Factory með skjalafalsi af ýmsu tagi en Vernon fullyrðir að Bagger hafi talað um milljarð dala, sem jafngildir um 5,5 milljörðum danskra króna.
Bagger lét sig hverfa þar sem hann var á ferðalagi ásamt konu sinni í Dubai fyrir 10 dögum. Þaðan virðist hann hafa flogið til New York þar sem hann fékk lánaðan bíl og ók síðan 4000 km vegalengd þvert yfir Bandaríkin til Los Angeles. Þar gekk hann inn í niðurnídda lögreglustöð í miðborginni og gaf sig fram.
„Við köllum stöðina sjálfir Rennusteinsstöðina," segir Vernon við Ekstra-Bladet. „Hingað koma margir, sem ekki eru heilir á geði og vilja að við handtökum þá fyrir allt mögulegt. Þess vegna trúðum við honum ekki strax," segir hann.
Fullyrt hefur verið að lýst hafi verið eftir Bagger um allan heim en lögreglan í Rennusteinsstöðinni fann hins vegar ekkert um Bagger þegar nafn hans var sett inn í gagnabanka alþjóðalögreglunnar Interpol. Bagger gafst þó ekki upp og sagði lögreglunni að „gúgla" nafn sitt. Þá gaf á að líta.
„Jú, þeir urðu víst opinmynntir. Þar var mikill fjöldi greina, einnig á ensku, um svikamyllu hans og um að hann væri eftirlýstur," segir lögregluforinginn.
Ekki er vitað hvenær Bagger verður framseldur til Danmerkur þar sem þjóðin bíður svara við fjölda spurninga.