Flugmaður vélarinnar sem nauðlenti í Hudson-fljóti í gærkvöld þykir hafa unnið mikið afrek. Hann er nú talinn hetja eftir að allir farþegarnir 155 og áhöfnin björguðust.
Vélin var frá flugfélaginu US Airways og var af gerðinni Airbus A320. Hún nauðlenti nokkrum mínútum eftir flugtak frá La Guardia og talið er að fuglahópur hafi lent í hreyflum hennar þannig að báðir urðu óvirkir.
Farþegum var flestum bjargað af vængjum vélarinnar en kafarar náðu nokkrum úr ískaldri ánni.
Meistaraleg lending
Borgarstjórinn Michael Bloomberg, bar lof á flugstjórann, Chesley Sullenberger, fyrir meistaralega lendingu.
Ríkisstjórinn talaði um lendinguna sem „kraftaverk á Hudson“.
Blaðamaður BBC skrifar frá New York að þarna hafi verið forðað stórslysi þar sem rétt hjá því sem vélin hrapaði er fjöldi skýjakljúfa og engin alvarleg slys urðu á fólki. Einn brotnaði á báðum fótum og bráðaliðar aðstoðuðu 78 aðra vegna minniháttar meiðsla.
Rannsóknarnefnd flugslysa er mætt á staðinn í New York til að rannska vettvanginn.
Flug 1549 fór á loft frá LaGuardia á leit til Charlotte í Norður-Karólínu kl. 15.03 að staðartíma, eftir 18 mínútna töf á fluginu. Flugmaðurinn tilkynnti að fuglar hefðu lent í báðum hreyflum innan mínútu eftir flugtakið og bað um leyfi til að lenda aftur áður en hann skellti vélinni í Hudson-fljótið.
Ferjur voru komnar á staðinn nokkrum mínútum síðar og hófu björgun farþega. Það var afar kalt og straumurinn í fljótinu var mjög þungur.
Vélin flaut hratt niður ána og óttast var að hún myndi sökkva þangað til dráttarbátar náðu að stöðva flot hennar.
Jeff Kolodjay, farþegi um borð í vélinni, lýsti lendingunni á þann hátt að um þremur eða fjórum mínútum eftir að vélin hófst á loft hafi hreyflarnir „einfaldlega sprungið og logar staðið út úr þeim“.
„Sterk lykt af bensíni gaus upp og nokkrum mínútum síðar sagði flugstjórinn okkur að búa okkur undir högg.“ Þá segir hann að allir hafi byrjað að biðja á meðan fólkið horfði á vatnið. „Við héldum að við ættum séns,“ segir hann, „af því að þarna var vatn.“
Hætta af fuglum
Stórar farþegaþotur þola að 1,8 kg fugl lendi á þeim en vandræði geta skapast ef stór hópur af litlum fuglum lenda í hreyflum þeirra eða stærri fuglar. 219 manns hafa látist í heiminum öllum frá árinu 1988 eftir slík tilvik.
Heimild: Bird Strike Committee USA