Rannsóknarnefnd flugslysa í Bandaríkjunum hefur hafið rannsókn á því hvað varð til þess að farþegaflugvél US Airways, með 155 innanborðs, neyddist til að nauðlenda í Hudsonfljóti í New York í gær. Búið er að setja upp stóran krana sem ætlað er að draga vélina, sem hefur marað í hálfu kafi, á þurrt.
Talið er að flugvélin hafi flogið inn í hóp fugla með þeim afleiðingum að hreyflar hennar skemmdust.
Rannsóknarnefnd flugslysa mun taka skýrslu af áhöfn flugvélarinnar, flugumferðarstjóra auk sjónarvotta. Þá er unnið að því að sækja flugrita vélarinnar.
Talsmaður nefndarinnar segir að stefnt sé að því að ná flugvélinni upp úr ánni eins fljótt og auðið sé. Það sé hins vegar mikilvægt að það sé gert á öruggan hátt. Hætt sé við því að búkur vélarinnar brotni í tvo hluta þegar reynt verði að draga hana upp á land.