Ríkisstjóri New York-ríkis, David A. Paterson, hefur valið fulltrúadeildarþingmanninn Kirsten Gillibrand til að taka því öldungadeildarþingsæti því sem losnaði er Hillary Clinton tók við utanríkisráðherraembættinu í ríkisstjórn Barack Obama. Gillibrand er 42 ára að aldri úr norðanverðu ríkinu, hefur getið sér orð fyrir djarfar stjórnmálaákvarðanir og telst til miðjumanna í Demókrataflokknum, að því er fram kemur í The New York Times.
Ríkisstjórinn mun tilkynna um ákvörðun sína síðar í dag, en að sögn blaðsins mun valið undir það síðasta hafa staðið milli tveggja kvenna, Gillibrand og Randi Weingarten, forseta kennarasambandsins. Sagt er að ríkisstjórinn hafi vilja konu til að fylla sæti Clinton og ekki talið verra að hún kæmi frá norðurhlutanum því að valið á Gillibrand gæti verið talið honum til tekna á þeim slóðum þegar hann sjálfur leitar eftir endurkjöri síðla árs 2010. Reyndar verður þá einnig kosið um sæti það sem Gillibrand hlýtur nú.
The New York Times segir að Patersen ríkisstjóri hafi vænst þess að góð sátt gæti ríkt um valið á Gillibrand en það þyrfti ekki endilega að verða raunin. Gillibrand hefur notið stuðnings hinna áhrifamiklu samtaka byssueigenda, National Rifle Association, sem margir frjálslyndari demókratar hafa ímugust á. Í þeim hópi er fulltrúadeildarþingmaðurinn, Carolyn McCarthy, Long Island demókrati, en eiginmaður hennar féll fyrir byssumanni 1993. McCarthy sem er eðlilega harðsnúinn andstæðingur samtaka byssueigenda, hefur sagt að verði Gillibrand valin sé hún tilbúin að fara gegn henni í forkosningunum 2010.
Kirsten Gillibrand býr nálægt Hudson, skammt frá Albany, ásamt eiginmanni sem starfar sem fjármálaráðgjafi og tveimur sonum, 5 ára og 6 mánaða. Hún hlaut mikið lof samþingmanna sinn fyrir að gegna þingstörfum allt fram til þess dags sem yngri sonurinn fæddist.