Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, vakti almenna hneykslan og reiði í dag þegar hann sagði, að ítalskar konur væru svo fallegar, að þær þyrftu að fá fylgd hermanna til að koma í veg fyrir að þeim yrði nauðgað.
Ummælin féllu þegar forsætisráðherrann var spurður um tillögu hans um að senda 300 þúsund hermenn út á götur ítalskra borga til að berjast gegn glæpum. Ofbeldisglæpir hafa verið tíðir á undanförnum vikum. M.a. var konu nauðgað á götu í Róm á gamlárskvöld og annarri skammt frá höfuðborginni í síðustu viku.
Berlusconi sagði, að ekki væri hægt að koma í veg fyrir nauðganir þótt her væri til staðar. „Það er ekki hægt að senda nógu marga hermenn til að koma í veg fyrir slíkt," hafði fréttastofan Anza eftir honum. „Það þyrfti svo marga hermenn til vegna þess að konurnar okkar eru svo fallegar."
Stjórnarandstöðuþingmenn fordæmdu þessi ummæli. Giovanna
Melandri, þingmaður Lýðveldisflokksins, sagði að ummælin væru móðgandi og aldrei mætti gantast með nauðganir.
Berlusconi reyndi að útskýra mál sitt með því að segja, að hann væri að hrósa ítölskum konum „vegna þess að það eru aðeins 100 þúsund lögreglumenn en milljónir fallegra kvenna."
Hann lagði áherslu á að nauðgun væri alvarlegur og viðbjóðslegur glæpur. En hann bætti við, að fólk mætti aldrei gleyma því að hann tjáði sig oft af gamansemi og glaðværð.
Ýmis ummæli Berlusconis hafa oft vakið uppnám.