Íraski sjítaklerkurinn Moqtada Sadr hefur gefið út fyrirmæli um að „siðspillingin" samkynhneigð verði upprætt. Talsmaður hans segir hann þó vara við ofbeldi gegn samkynhneigðum en mikil fjölgun hefur orðið á árásum á þá í landinu að undanförnu.
„Tilgangur fundanna er að berjast gegn siðspillingu og hvetja samfélagið til að leggjast gegn þessu fyrirbæri,” segir talsmaðurinn Sheikh Wadea al-Atabi um ráðstefnu klerka, ættbálkahöfðingja og lögreglu um málið í gær. „Eina leiðin til að stöðvað þetta er með ræðuhöldum og leiðsögn.”
Þá sagði hann Al-Sadr ekki styðja ofbeldi gegn samkynhneigðum og að þeir sem beiti slíku ofbeldi geti ekki talist til hreyfingar hans.
Á ráðstefnunni í gær sagði Al-Sheikh Dawud al-Enezi, einn af leiðtogum hreyfingar Sadr m.a: „Við verðum að leiðrétta siðferði þjóðarinnar. Samkynhneigð er stórslys sem hent hefur þjóðina.”
Abu Hussein, ættflokkaleiðtogi í Sadr City sagði: „Það verða allir að vinna að því að varðveita siðferði unga fólksins gegn þessari spillingu úr vestri.”
Þrír menn, sem sagðir eru hafa verið hommar, voru skotnir til bana í Sadr City í Bagdad í síðasta mánuði. Aðrir þrír voru pyntaðir til bana. Fjórir til viðbótar voru pyntaðir en lifðu það af.
Í apríl hengdu samtök sem kalla sig „Hersveitir hinna ráðvöndu” upp lista með nöfnum meintra homma í Sadr City og hótaði þeim lífláti.
Mannréttindasamtökin Amnesty International hvöttu fólk til þess í síðasta mánuði að skrifa Nuri al-Maliki, forsætisráðherra landsins, og hvetja yfirvöld til aðgerða til verndar samkynhneigðum í landinu.