Flestir farþeganna 216 um borð í Airbus A330 flugvél Air France, sem hvarf yfir Atlantshafi í morgun, voru frá Brasilíu. Þá voru einnig 40 Frakkar um borð og 20 Þjóðverjar að sögn fransks ráðherra. Danskir fjölmiðlar segja að hugsanlega hafi sex Danir verið um borð.
Danska utanríkisráðuneytið segir, að allt benti til þess að fjórir danskir karlmenn, ein kona og barn hafi verið í vélinni. Þá er talið að 5 Ítalar, þrír Marokkóbúar, tveir Líbanar og einn Portúgali hafi verið um borð.
Talið er að eldingu hafi lostið niður í vélina og við það hafi rafkerfið bilað með þeim afleiðingum að hún steyptist í sjóinn.
Flugvélin er af gerðinni Airbus A330 og var afhent til Air France í apríl 2005. Henni hefur alls verið flogið í 18.800 stundir í 2500 flugferðum. Hreyflarnir eru af gerðinni CF6-80E1 frá General Electric.
Flugvélin lagði af stað klukkan 22:29 í gærkvöldi að íslenskum tíma frá Tom Jobin alþjóðaflugvellinum í Rio de Janiero í Brasilíu. Um borð voru 216 farþegar og 12 manna áhöfn.
Klukkan 1:33 í nótt höfðu brasilískir flugumferðarstjórar síðast samband við vélina sem þá var 565 km undan norðausturströnd Brasilíu. Flugvélin var þá í 10.670 metra hæð á 840 km hraða og allt var með kyrrum kjörum.
Klukkan 2 tilkynnti flugstjórinn að flugvélin hefði flogið inn í mikla ókyrrð í lofti vegna óveðurs á Atlantshafi.
Klukkan 2:14 sendi flugvélin frá sér sjálfvirka tilkynningu um að rafmagnstruflun hefði orðið.
Klukkan 2:20 kom í ljós að flugvélin lét ekki vita af sér þegar hún fór inn í loftrými Senegals. Brasilískir flugumferðarstjórar höfðu samband við flugstjórn í Senegal Afríkumegin við Atlantshaf.
Klukkan 5:30 voru brasilískar herflugvélar sendar af stað til leitar eftir að frönsk flugmálayfirvöld höfðu sent út viðvörun.
Klukkan 7:30 var byrjað að undirbúa neyðarmóttöku á Charles de Gaulle flugvelli.
Klukkan 9:10 átti flugvélin að lenda í París. Skömmu síðar staðfestu frönsk stjórnvöld að flugvélin væri horfin.