Leit að hefjast

Airbus A330-200 farþegaflugvél eins og sú sem saknað er yfir …
Airbus A330-200 farþegaflugvél eins og sú sem saknað er yfir Atlantshafi. Reuters

Leit er nú að hefjast að farþegaflugvél Air France flugfélagsins sem hvarf af ratsjám þar sem hún var á flugi yfir Atlantshafið í nótt. 228 voru um borð í vélinni, þar af 15 manna áhöfn.

Jean-Louis Borloo, umhverfisráðherra Frakklands, sagði að sennilega hefði orðið slys því flugrán hefði verið útilokað.

Yfirmaður á Charles de Gaulle flugvelli, sagði að síðast þegar heyrðist í flugmanni flugvélarinnar hefði hann sagt að mikil ókyrrð væri í lofti. Í kjölfarið rofnaði samband við vélina. 

Vélin var á leið frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Charles de Gaulle, flugvallar í París í Frakklandi. Flugher Brasilíu er nú að hefja leit að vélinni úr lofti í nágrenni eyjunnar Fernando de Noronha undan austurströnd Brasilíu.  

Flugvélin, sem er af gerðinni Airbus 330-200 og með flugnúmerið AF 447, átti að lenda í París klukkan 9:10 að íslenskum tíma í morgun en hún fór frá Rio klukkan 22 í gærkvöldi að íslenskum tíma. Nokkrir klukkutímar eru frá því hún hvarf.

Talsmaður brasilíska flughersins sagði við þarlendar sjónvarpsstöðvar, að  flugvélin hefði ekki komið fram á ratsjám á Grænhöfðaeyjum á leið yfir Atlantshafið.  

Þrír flugmenn eru um borð í vélinni. Ítalska fréttastofan ANSA segir, að fimm Ítalir hafi verið í vélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert