Leitað úr skipum og flugvélum

Mikil leit stendur nú yfir á Atlantshafi að flugvél Air France flugfélagsins sem hvarf úti fyrir austurströnd Brasilíu í gær. Leitað er neðansjávar með tækjabúnaði úr flugvélum og skipum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Skip frá Frakklandi, Spáni, Senegal og Brasilíu taka þátt í leitinni en þau hættu þó leit yfir blánóttina. Hercules C130 og Embraer R-99 herflugvélar héldu þó áfram leit í alla nótt.

Von er á fleiri flugvélum og skipum til leitar á svæðinu í dag. Leitarsvæðið hefur nú verið afmarkað um hálfa vegu á milli Brasilíu og vesturhluta Afríku en þar er hafið mjög djúpt. 

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir Bandaríkjamenn muni veita alla þá aðstoð við leiðina sem þörf sé á og hefur m.a. boðið fram leit um njósnagervihnetti Bandaríkjanna.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Frakklandi segja ekkert benda til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða. 

Flugvélin sem var af gerðinni Airbus var á leið frá Rio de Janei í Brasilíu til Parísar í Frakklandi með 228 farþega um borð er hún hvarf af ratsjám. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagði síðdegis í gær að lítil von væri til þess að fólkið, sem var í flugvélinni, væri enn á lífi.  Sarkozy ræddi í gær við aðstandendur farþega, sem biðu frétta á Charles de Gaulle flugvelli.

Pierre-Henry Gourgeon, forstjóri Air France, sagði í morgun, að á annan tug sjálfvirkra villuboða hefðu borist frá flugvélinni í fyrrinótt sem sýndu, að nokkur rafkerfi hefðu bilað. Það hefði valdið áður óþekktu ástandi í vélinni.

Farþegarnir í flugvélinni voru frá 32 löndum þar á meðal íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri. Flestir voru frá Frakklandi, 61 farþegi og 12 manna áhöfn, 58 frá Brasilíu og 26 frá Þýskalandi. 


Aðstandendur þeirra sem voru um borð í flugi Air France …
Aðstandendur þeirra sem voru um borð í flugi Air France AF447 koma til Windsor hótelsins í Rio de Janeiro REuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert