Veðurfræðingar segja að veðuraðstæður hafi verið mjög óvenjulegar er þota Air France flugfélagisn fórst yfir Atlantshafi á mánudagsmorgun. Uppstreymi, sem hafi náð allt að 160 km/klst hraða, hafi myndað holrúm yfir hafinu og sogað vatn upp úr sjónum. Rakinn hafi síðan stigið upp og sennilega myndað ísingu á vélinni. Þá hafi upptreymið einnig valdið mikilli ókyrrð.
Dominique Bussereau samgönguráðherra Frakklands, gagnrýndi yfirvöld í Brasilíu fyrir það í morgun að tjá sig of frjálslega um mál er varða flugslysið. Herskip frá Bralilíu kom á hafsvæðið þar sem talið er að flugvélin hafi hrapað í hafið í gær. Kom þá í ljós að brak sem hafði sést úr lofti var ekki úr flugvélinni eins og talsmenn brasilíska flughersins höfðu staðhæft.„Frönsk yfirvöld hafa dögum saman bent á það að sýna þurfi mikla háttvísi,” sagði hann. „Flugvélar okkar og herskip hafa ekkert séð.”