Kínverskur unglingur sem var sendur í endurhæfingarstöð fyrir internetfíkla var barinn til ólífis af þjálfurum við skólann. Ástæða verknaðarins var sú að þeim fannst drengurinn ekki hlaupa nógu hratt.
Hinir þrír meintu gerræðismenn hafa verið handteknir og er málið í rannsókn.
Deng sem var 16 ára útskrifaðist úr menntaskóla í Guilin í júlí og var sendur til Guangxi Qihang æfingabúðanna en þær eru reknar af miðstöð í bænum sem vinnur að því að hjálpa unglingum að bæta sjálfan sig og þroska. Foreldrar drengsins lásu auglýsingu um búðirnar og að þar gætu unglingar losnað við internetfíkn en hún er nú skilgreind sem geðsjúkdómur í Kína. Borguðu þau um þúsund dali fyrir mánaðardvöl í búðunum.
Í markmiðalýsingu búðanna stendur: Þjálfun okkar er erfið en felur ekki í sér pyntingar eða aðrar aðferðir sem gætu verið skaðlegar heilsu barnsins.
Deng var hins vegar settur í einangrun nokkrum klukkustundum eftir að komið var með hann í búðirnar og var síðan barinn til dauða af kennurum sínum eftir að hafa verið skammaður fyrir að hlaupa of hægt.
„Sonur minn var mjög heilsuhraustur og var ekki glæpamaður,“ segir faðir hans. „Hann þjáðist bara af internetfíkn og því fór ég með hann í þessar búðir.“ Lögreglan sagði föðurnum að hann hefði látist á mánudagsmorgun.
Eftir að hafa barið Deng rann upp fyrir kennurum hans að hann var alvarlega slasaður og sendu þeir hann á spítala í Wuxu þremur tímum síðar. Hann var lýstur látinn klukkan þrjú á sunnudagsnótt, tíu mínútum eftir að hann var lagður inn. Þegar hann kom var hann með veikan hjartslátt og gat ekki andað. Læknar á spítalanum segja að ómögulegt hafi verið að bjarga honum.
Lögreglan lét föðurinn vita af atvikinu og flýtti hann sér þegar á staðinn. Þegar hann hringdi í búðirnar neituðu þær að eitthvað hefði komið fyrir. Skólastjórinn sagði honum að sonur hans hefði verið fluttur á spítala vegna þess að hann hefði háan hita. Faðirinn á hins vegar ættingja í lögregluliði bæjarins og fékk að vita sannleikann þannig.
Hann sagði að augljóst væri að drengurinn hefði verið barinn. Hann hefði verið alblóðugur í andliti og merki um handjárn á úlnliðunum.
Hópur foreldra barna við búðirnar og ættingja Deng krefjast þess að málið verði fyllilega rannsakað og að búðunum verði lokað.
Netverjar í Kína eru æfir yfir málinu og segja það enn eitt dæmið um gróft ofbeldi gegn þeim sem nota internetið. Fjöldi manna hafi verið fangelsaður og margir látið lífið í fangelsum vegna þess eins að nota netið.
Skammt er síðan að bannað var í Kína að nota rafstuð til þess að „lækna“ fólk af leikjafíkn.