Harry Patch borinn til grafar

Búist er við að þúsundir manna fylgist með minningarathöfn um Harry Patch í dag en Patch var síðasti eftirlifandi hermaður Bretlands sem barðist í skotgröfum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Harry Patch fæddist árið 1898 í Combe Down, nálægt Bath. Hann var skráður í herinn 18 ára gamall og barðist í orrustunni um þorpið Passchendaele við Ypres í Belgíu. Tugir þúsunda breskra hermanna létu þar lífið á vígvellinum. 

Með fráfalli Patch er aðeins einn eftirlifandi Breti sem barðist í heimsstyrjöldinni, en það er hinn 108 ára gamli Claude Choules sem gegndi herþjónustu í Konunglega sjóhernum. Um miðjan júlí lést annar eftirlifandi hermaður, hinn 103 ára gamli Henry Allingham sem einnig barðist með sjóhernum.

Útför Harry Patch fer fram frá Wells dómkirkjunni í Somerset. Klukkum dómkirkjunnar verður hringt 111 sinnum í upphafi athafnarinnar, einu sinni fyrir hvert ár sem Patch lifði.

Búist er við að um þúsund manns komist í dómkirkjuna en þúsundum verður gert kleift að fylgjast með athöfninni á risasjónvarpsskjá.

Hertogaynjurnar af Cornwall og Gloucester verða viðstaddar athöfnina. Þá taka þátt í athöfninni fulltrúar herja Frakka, Belga og Þjóðverja, tveir frá hverjum her um sig.

Fjölskylda Patch segri að yfirskrift miningarathafnarinnar verði friður og sættir, í anda hins látna.

Harry Patch.
Harry Patch. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert