Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Jim Webb ræðir nú við Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, í Yangon. Webb er fyrsti erlendi gesturinn sem fær að ræða við Suu Kyi frá því að hún var dæmd í eins og hálfs árs stofufangelsi til viðbótar fyrr í mánuðinum.
Fundurinn fer fram í gestahúsi herforingjastjórnarinnar í Yangon. Áður hafði Webb rætt við Than Shwe, æðsta leiðtoga herforingjastjórnarinnar í Búrma. Fundur þeirra er álitinn sögulegur þar sem mjög sjaldgæft er að Than Shwe taki á móti erlendum gestum.
Fundurinn virtist bera skjótan árangur því skömmu síðar var skýrt frá því að Bandaríkjamanninum John Yettaw yrði vísað úr landi. Yettaw var dæmdur í fangelsi í vikunni fyrir að synda að heimili Suu Kyi við stöðuvatn í Yangon og mál hans varð til þess að herforingjastjórnin fékk átyllu til að halda Suu Kyi lengur í stofufangelsi.