Yfirvöld í Kaliforníu leita nú sönnunargagna á heimili hjónanna sem rændu stúlku fyrir 18 árum. Er þetta gert í tengslum við morð á fjölmörgum vændiskonum. Lögreglumaður fór að húsinu þar sem Jaycee Lee Dugard var haldið fyrir þremur árum vegna kvörtunar frá nágranna en rannsakaði ekki málið fyllilega.
Lögreglan í Contra Costa segir að lögreglumenn hafi fengið leitarheimild til þess að leita í húsinu í tengslum við óleyst morðmál. Lík myrtra kvenna fundust á sínum tíma nærri verksmiðju þar sem Phillip Garrido vann á tíunda áratugnum.
Lögreglan í Contra Costa sætir nú nokkurri gagnrýni vegna máls stúlkunnar, Jaycee Lee Dugard, en komið hefur í ljós að nágranni nokkur kvartaði undan að búið væri í bakgarði hússins í nóvember 2006 en lögreglumaðurinn sem fór á vettvang leit á málið sem venjulegt brot á reglugerð.
Hann vissi ekki af því að Garrido væri skráður kynferðisbrotamaður, jafnvel þótt að embættið hefði slíkar upplýsingar.
Lögreglustjórinn, Warren E. Rupf sagði að meiri forvitni og grunsemdir af hálfu lögreglumannsins hefðu getað leitt til þess að íverustaðir stúlkunnar og barnanna tveggja kæmu í ljós. ,,Það er engin afsökun fyrir þessu, við hefðum átt að standa okkur betur."