Jaycee Lee Dugard, sem slapp á miðvikudag úr haldi mannræningja eftir átján ár, hitti fjölskyldu sína á ný í San Franciscoí dag. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Stjúpfaðir hennar Carl Probyn, sem varð vitni að því er Jaycee, sem þá var ellefu ára, var kippt inn í bíl við heimili hennar, sagði tilfinninguna vera eins og að vinna í happdrætti.
„Að fá hana aftur á lífi, að hún skuli muna allt úr fortíðinni og að það skuli vera fólk í haldi er eins og þrefaldur vinningur,” sagði hann. Þá sagði hann það hryggja sig að heyra hversu erfitt líf hennar hafi verið og að hann telji að það muni taka hana og dætur hennar tvær langan tíma að vinna úr því.
Svo virðist sem Jaycee hafi fætt mannræningja sínum tvær dætur er hún var fjórtán og átján ára gömul og að allar hafi þær að mestu dvalið í einangrun í skúrum og tjöldum í lokuðum bakgarði. Bíll, sem samsvarar lýsingu Probyn á bíl mannræningjanna, fannst einnig í bakgarðinum.
Stúlkan fannst er hjónin Phillip og Nancy Garrido, komu með hana og dætur hennar á lögreglustöð til að hitta skilorðsfulltrúa. Þangað hafði Phillip verið kallaður þar sem hann hafði sést í fylgd dætranna en hann má ekki umgangast börn þar sem hann hefur verið sakfelldur fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.
Munu hjónin upphaflega hafa kynnt Jaycee sem Allissu og sagt hana dóttur sína. Phillip játaði síðan að hafa rænt Jaycee og haldið henni fanginni síðan. Þá játaði hann að vera faðir dætra hennar. Nágrannar hjónanna hafa nú greint frá því í fjölmiðlum í Bandaríkjunum að þeim hafi þótt hjónin furðuleg.
Einn nágrannanna Haydee Perry segir að hann hafi nýlega aðstoðað hana við að koma bíl hennar í gang og að hún hafi þá tekið eftir því að unglingsstúlka hékk á sérkennilegan hátt utan í honum.
Stúlkan sagði henni síðan að hún væri dóttir hans og að hún ætti eldri systur, sem væri 28 ára. „Hún hélt sig nálægt honum allan tímann. Hegðun hennar var ekki eðlileg. Það var tómleiki í augnaráði hennar,” segir hún.
Aðrir nágrannar hjónanna hafa greint fjölmiðlum frá því að þeir hafi talið að hjóni byggju ein í húsi sínu ásamt aldraðri móður Phillips.