Lögregla í Antioch í Bandaríkjunum gerði í morgun húsleit á heimili nágranna Phillip Garrido, sem sakaður er um að hafa rænt ellefu ára stúlku fyrir átján árum og haldið henni fanginni á heimili sínu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Garrido mun hafa haft umsjón með húsinu fyrir aldraðan eiganda þess uns núverandi íbúi þess Damon Robinson fluttist þangað fyrir þremur árum.
Garrido er sagður hafa rænt Jaycee Lee Dugard árið 1991, getið henni tvö börn og haldið henni og börnunum í tjöldum og skúrum í bakgarði heimilis síns. Hann og eiginkona hans, sem bæði neita sök í málinu, eru í haldi lögreglu, sökuð um mannrán, frelsissviptingu pog nauðganir.
Það var fyrrum kærasta Robinson sem tilkynnti lögreglu árið 2006 að hún teldi ekki allt með felldu á heimili Garrido. Lögregla hefur nú beðist afsökunar á því að hafa ekki fylgt ábendingu hennar eftir.
Tveir lögreglumenn, sem fyrr í vikunni tilkynntu skilorðafulltrúa Garrido um grunsamlega hegðun hans, hafa nú greint frá því að það hafi verið hegðun tveggja stúlkubarna, sem voru með honum, sem hafi vakið grunsemdir þeirra.
Lögreglumennirnir Lisa Campbell og Ally Jacobs hittu Garrido við háskólann í Berkeley á þriðjudag en þar freistaði hann þess að fá að halda trúarsamkomu. Með honum voru tvær stúlkur um ellefu og fimmtán ára gamlar. Lögreglumennirnir gáfu sig á tal við þau og segja framkomu stúlknanna hafa veið vélræna og sérkennilega. Þá hafi þær verið mjög fölar í samanburði við Garrido og mjög bláeygðar. „Við fengum bara skrýtna óþægilega tilfinningu," segir annar þeirra.
Í kjölfarið var Garrido kallaður til fundar við skilorðsfulltruúa sinn en þangað kom hann með stúlkurnar og konu sem síðar kom í ljós að var Dugard.