Velji milli fangelsis og flengingar

Stungið er upp á því í Noregi að sakamenn fái …
Stungið er upp á því í Noregi að sakamenn fái að velja milli flengingar og fangelsis.

Norskur prófessor í hugmyndafræði stingur upp á því í blaðaviðtali í dag, að dæmdir sakamenn fái að velja á milli þess að sitja í fangelsi eða vera hýddir opinberlega.

„Það er engin ástæða fyrir því að fólk fái ekki þetta val ef það er dæmt fyrir afbrot," hefur norska Dagbladet eftir prófessornum Espen Schaanning. „Það væri til dæmist raunhæfur kostur fyrir afbrotamenn með fjölskyldur að velja frekar hýðingu en fangelsisdóm." 

Schaanning segir, að fangelsisdómur valdi sársauka með sama hætti og flengingu en með mannúðlegri hætti Opinber hýðing sé hins vegar mun opnari og heiðarlegri refsing. Hún hafi það einnig sér til ágætis að hún taki fljótt af og því sé fyrr hægt að hefja endurhæfingu sakamanna.

Haft er eftir  Øyvind Alnæs, fangelsisstjóra í Ósló, að hann voni að þetta útspil prófessorsins leiði til alvarlegrar og breiðrar umræðu um þessi mál.   

John Peder Egenæs, framkvæmdastjóri Amnesty International í Noregi, segir að hýðingar tengist fyrst og fremst löndum, sem framfylgi öfgafullum sharialögum, þar á meðal Íran, Súdan og Sádi-Arabíu.  Hann segir, að Amnesty sé alfarið á móti slíkum refsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert