Franski læknirinn Jacques Lorblanches sem sinnir nú fórnarlömbum
jarðskjálftans á Haítí segist hafa misst tölu á því hversu marga hann
hafi aflimað síðustu tvo sólarhringana. Hann segir hinsvegar í samtali
við fréttaritara AFP að hann muni aldrei nokkurn tíma gleyma þeim
hræðilegu kringumstæðum sem hann hafi framkvæmd aðgerðirnar við.
„Ég
hef aldrei séð neitt þessu líkt, sýkt sár full af lirfum."
Skurðlæknirinn lýsir aðstöðunni, í bráðabirgðasjúkraskýli úti á
víðavangi, við blóðugan 19. aldar orrustuvöll. "Ég framkvæmdi fyrstu
aflimunina með þremur læknatöngum, fimm skærum og skurðarhníf, án vatns
og bara með vasaljós til að lýsa upp meiðslin," segir Lorblanches. Hann
var sendur til Haítí ásamt hópi lækna frá samtökunum Doctors of the
World.
Íbúar Port-au-Prince hafa undanfarna viku upplifað
algjöra martröð eftir að jarðskjálftinn lagði höfuðborgina og fleiri
svæði í rúst. Margir þeirra sem voru svo heppnir að lifa skjálftann
gengu beint inn í aðra martröð þegar fjarlægja þurfti einn eða fleiri
útlimi. Jafni þeir sig eftir aðgerðirnar bíður þeirra að öllum líkindum
líf markað af gríðarlegri fátækt, að sögn AFP.
Frá því frönsku
læknarnir komu á staðinn á laugardag hafa 28 af 30 aðgerðum þeirra
endað með aflimun. Grátbiðjandi ættingjar flytja hina slösuðu til
læknanna í hjólbörum eða á frumstæðum sjúkrabörum sem gerðar eru úr
hurðum hruninna húsa.
Í búðum frönsku læknana ræðir AFP við haítísku stúlkuna Marie-Francoise þar sem hún liggur kvalin eftir að hafa misst annan handlegginn. Foreldrar hennar dóu þegar heimili fjölskyldunnar hrundi til grunna. Sjálf lá Marie-Francoise klukkustundum saman föst undir rústunum en var á endanum bjargað af nágrönnum sínum. „Ég er glöð yfir að vera á lífi, en ég get ekki hugsað um framtíðina. Ég hef misst allt og ég get ekki unnið," hefur AFP eftir grátandi stúlkunni.
Í hverfinu fátækrahverfinu Carrefour liggja tugir manna særðir og deyjandi á götum úti og hafa verið þar klukkustundum, jafnvel dögum saman, undir steikjandi sólinni og bíða þess að fá hjálp. Inni í tjaldi í nágrenninu eru aflimanir framkvæmdar nánast á færibandi.